Gengið á góða spá- skíðaganga á sunnudaginn

 

Sunnudaginn 22. janúar n.k. efnir Ferðafélag Íslands til gönguferðar undir slagorðinu: Gengið á góða spá. Slíkar göngur eru eðli málsins samkvæmt auglýstar með skömmum fyrirvara. Á sunnudag er spáð norðanátt og svölu veðri en úrkomulausu og rétt að drífa sig á skíði.
Gangan hefst við Hellisheiðarvirkjun og verður haldið norður með Húsmúla í Engidal og þaðan áleiðis í Marardal. Engidalur og Marardalur eru í hlíðum Hengilsins. Þessar slóðir eru sögusvið ýmissa atburða og koma dularfullt morðmál og tilþrifamiklar hreindýraveiðar við sögu.
Gönguleiðin er 14-16 kílómetrar og að mestu sléttlent. Þarna eru ágæt snjóalög og verkefnið ætti því að vera við hæfi flestra sem einhverja reynslu hafa af gönguskíðum.
Þátttakendur hittast við bækistöðvar Ferðafélags Íslands í Mörkinni 6 og aka þaðan kl. 10.00 að sunnudagsmorgni á eigin bílum eða sameinast í bíla. Aka skal þjóðveg 1 (Suðurlandsveg) til austurs en rétt neðan við Hveradali er beygt inn að Hellisheiðarvirkjun þar sem gangan hefst. Áætluð brottför þaðan er um 10.30 og stefnt er að því að koma aftur að bílum milli 15.00 og 16.00.
Verð er kr. 1.000 á mann sem greiðist í reiðufé við brottför úr Mörkinni 6 eða við upphaf göngu.
Fararstjórar verða Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir.

Marardalur