Í september verður framhald á skemmtilegu opnu útivistarverkefni Ferðafélags Íslands sem ber nafnið Gengið á góða spá.
Eins og heitið gefur til kynna snúast þessar ferðir um þá meginhugmynd að stunda útivist og fjallgöngur í góðu veðri. Umsjónarmaður verkefnisins, Ragnar Antoniussen, verður í beinu sambandi við Veðurstofu Íslands og þegar gott veður er í kortunum mun hann skella ferðum á dagskrá, á því svæði þar sem veðurspáin er best og mestar líkur á góðu gönguveðri og fjallaútsýni.
Ferðirnar verða fjölbreyttar að umfangi, bæði fjallgöngur og annars konar útivist, léttar göngur og erfiðar, langar og stuttar. Að jafnaði verða þessar ferðir um helgar, annað hvort laugardag eða sunnudag. Og þó að uppleggið sé að stunda útivist þegar vel viðrar þá verður enginn afsláttur gefin af fatnaði og þeim búnaði sem þátttakendur þurfa að taka með sér, því veður geta að sjálfsögðu breyst afar hratt, sérstaklega til fjalla.
Á Meitlum / Á Sólheimajökli á leið að gömlu Hvítmögu
Eins og gefur að skilja verður ekki hægt að auglýsa þessar ferðir með löngum fyrirvara. Ákveðið verður miðvikudag eða fimmtudag hvort og þá hvar veðurspáin er hagstæðust fyrir helgina og þá fyrst verður næsta ferð auglýst, bæði hér á heimasíðu Ferðafélags Íslands sem og á fésbókarsíðu.
Allra best er þó að fylgjast með þessum ferðum með því að ganga í fésbókarhópinn Gengið á góða spá. Meðlimir hópsins munu þá fá allar upplýsingar um fyrirhugaðar ferðir beint inn á eigin fésbók. Innan hópsins verður líka hægt að skiptast á myndum og ferðasögum, sameinast í bíla og kynnast nánar.
Þessar gönguferðir standa öllum opnar og fólk getur mætt í eina eða allar þær ferðir sem settar verða á dagskrá, allt eftir áhuga, getu og tíma. Það er þó nauðsynlegt að skrá sig í þá ferð sem maður ætlar að mæta í, annað hvort á skrifstofu FÍ í síma 568 2533 eða með því að senda póst á fi (hjá) fi.is fyrir kl. 14, föstudaginn fyrir ferð. Verð hverrar ferðar fer eftir lengd hennar og jafnframt því hvort ferðast verður í rútu eða einkabílum. Félagsmenn FÍ njóta afsláttarkjara.
Horft yfir Hvalfjörð af Þyrli