Gengið um Langanes

Grenjanes - María
Grenjanes - María

Í júlí verður hægt að komast í skemmtilega ferð undir leiðsögn heimamanna um eyðibyggðir Langaness.

Gengið er um friðsæla byggð sem var og eyðiþorp með mikla sögu, um lífleg fuglabjörg og út á ysta odda Langaness. Gist er í fjórar nætur á gistiheimilinu á Ytra Lóni.

Fáein sæti eru laus í þessa ferð sem farin verður dagana 2.-6. júlí og er á vegum Ferðafélagsins Norðurslóðar sem er deild innan FÍ. Nauðsynlegt er að skrá sig í ferðina í síðasta lagi 7. júní með því að senda póst á ffnordurslod(hja)simnet.is. Nánari upplýsingar má líka fá í síma 892 8202.

Langanes-Fontur

1. dagur, sunnudagskvöld: Mæting á Farfuglaheimilið Ytra Lón á Langanesi. Þátttakendur koma sér fyrir. Kl. 20:00 er fræðslustund og farið yfir dagskrá næstu daga. Ekki er gert ráð fyrir sameiginlegum mat fyrsta kvöldið en góð eldunaraðstaða er á farfuglaheimilinu.

2. dagur: Gengið um svokallaðan eyðibýlahring og fræðst um sögu bæjanna og byggðarinnar, gróðurinn, fuglana og fjöllin. (15 km.)

3. dagur: Gengið með sjónum frá Lambanesi út að Heiðarhöfn, um Heiðarnesið og til baka eftir Messumelnum. Rekaviður og fallegar fjörur, fullar af lífi. (16 km.)

4. dagur: Ekið upp á Heiðarfjall og ummerki ratsjárstöðvar varnarliðsins skoðaðar. Síðan niður í Hrolllaugsstaði en þaðan er gengið um Kumblavík og Skálabjarg að eyðiþorpinu Skálum (12 km.) Frá Skálum er ekið út á Font, komið við á Skoruvíkurbjargi sem iðar af fugli og litið á súlubyggðina í Stóra-Karli. Ekið til baka að Ytra Lóni.

5. dagur: Gengið frá Sauðanesi út í Grenjanesvita. Á leiðinni eru ýmis mannvirki og menningarminjar. Komið við í Sauðaneshúsi í lok ferðar. (8 km.)

Verð: 58.000 / 62.000. Innifalið: Gisting, 4x morgunmatur, 3x kvöldmatur, akstur, göngukort, aðgangseyrir og fararstjórn.

Erfiðleikastig ferðarinnar er tveir skór. Á köflum er gengið um óslétt land og þýfða móa og þurfa þátttakendur að vera í nokkuð góðri gönguþjálfun.

Lambanes 3 - Beitarhús - Heiði Langanes 5 - Rekaviður - Halldóra Jóns