Gengið var á Kerhólakamb Esju

 

Í þokusudda og hávaðaroki laugardaginn 28. apríl hélt stór hópur á Kerhólakamb Esju. Skyggni var 50 m. og hvasst þegar komið var uppá fjallið. Ekki lét mannskapurinn það neitt á sig fá þó fatnaður væri farinn að leka og búnaðurinn orðinn blautur. Þegar seinni hópurinn kom á tindinn fóru fram óvæntir tónleikar við mikinn fögnuð viðstaddra.

Gore-tex og gerfiefni gagnaðist lítið þar
galli úr þykkasta gúmmí gáfulegra var.
Með sjóhatt og svellþykkan fatnað frá sjóklæðagerðinni
sýnist mér eina vitið í síðustu ferðinni. 

Uppi var útsynningur og óskaplegt hávaðarok
en einn var þar ekki banginn og opnaði sitt kok.
Og söng þar af krafti sönginn um svalviðra-hörkutól
sem síðastir eru úti meðan sauðirnir skríða í ból.

Kerhólakambur
Allir vel búnir fyrir gönguna 

Gengið af stað
Löng röð upp fyrstu brekkurnar

Menn hurfu upp í þokuna
Menn hurfu upp í þokuna

Á toppnum í núll skyggni
Seinni hópurinn á tindinum í núll skyggni

Seinni hópurinn á tindinum í núll skyggni og þar flutti Þorvaldur Ingi Árnason Undir Kaldadal eftir H.Hafstein við eigið lag. Einkar viðeigandi og stórkostlegur flutningur.

Ég vildi óska, það yrði nú regn
eða þá bylur á Kaldadal,
og ærlegur kaldsvali okkur í gegn
ofan úr háreistum jöklasal.

Loft við þurfum. Við þurfum bað,
að þvo burt dáðleysis mollu-kóf,
þurfum að koma á kaldan stað,
í karlmennsku vorri halda próf.

Þurfum á stað, þar sem stormur hvín
og steypiregn gerir hörund vott.
Þeir geta þá skolfið og skammast sín
sem skjálfa vilja. Þeim er það gott.

Ef kaldur stormur um karlmann ber
og kinnar bítur og reynir fót,
þá finnur 'ann hitann í sjálfum sér
og sjálfs sín kraft til að standa mót.

Að kljúfa rjúkandi kalda gegn
það kætir hjartað í vöskum hal. ­
Ég vildi það yrði nú ærlegt regn
og íslenskur stormur í Kaldadal