Gerður Steinþórsdóttir og Höskuldur Jónsson eru meðal þeirra sem rætt er við í Fótspori á fjöllum.

Bókin Fótspor á fjöllum sló í gegn: 

Óslökkvandi ást á náttúrunni 

"Fyrir þann sem hefur áhuga á ferðum og ferðalögum var það ævintýri líkast að fá að tala við þessa ferðagarpa sem miðluðu mér og lesendum bókarinnar af reynslu sinni af útilegum og slarki í marga áratugi,” segir Páll Ásgeir Ásgeirsson blaðamaður.

Fótspor á fjöllum -150Fyrir jólin kom út bókin Fótspor á fjöllum, þar sem finna má viðtöl við sex orðlagða þrautreynda fjallagarpa sem hafa ferðast um Ísland alla sína ævi og eru enn á ferð með áratuga reynslu og harðfylgi í veganesti. Viðmælendur Páls í bókinni eiga sameiginlegt að hafa unnið mikið starf á vettvangi Ferðafélags Íslands, sem verður 80 ára á haustdögum.

Þau sem rædd er við í bókinni eru Höskuldur Jónsson, fyrrum forseti FÍ, Sigrún Valbergsdóttir leikstjóri, Valgarður Egilsson, læknir og varaforseti FÍ, Gerður Steinþórsdóttir kennari, Ingvar Teitsson læknir og Guðmundur Hallvarðsson frá Búðum í Hlöðuvík, sem er þjóðsagnapersóna meðal Hornstrandafara eftir fararstjórn þar um áratugi.

“Reynsla þeirra er fjölbreytt og bakgrunnurinn ólíkur en það sem sameinar þetta fólk allt er óslökkvandi áhugi og ást þess á íslenskri náttúru. Þess vegna var það frekar skemmtun en vinna að skrá frásagnir þeirra,” segir Páll Ásgeir, sem á undanförnum árum hefur skrifað vinsælar leiðsögubækur um íslenska náttúru og þar eru þekktastar Hálendishandbókin, Útivistarbókin og Bíll og bakpoki.