Gestabókarganga á Viðarfjall við Þistilfjörð
Viðarfjall við Þistilfjörð hefur verið tilnefnt í verkefnið “Fjölskyldan á fjallið” sem er einn liður í almenningsíþróttaverkefnum Ungmennafélags Íslands. Héraðssamband Þingeyinga tilnefnir á hverju ári tvö fjöll á starfssvæði sínu í þetta verkefni; eitt í norðurhlutanum og annað í sunnanverðri sýslunni.
Gengið verður á Viðarfjallið næstkomandi laugardag, þann 28. apríl nk. til að koma þar fyrir gestabók. Lagt verður upp kl. 13:00 frá vegi nr. 85 (Norðausturvegi) við Litla- Viðarvatn. Gangan er auðveld; gengið er eftir slóða sem liggur á fjallið. Göngustjóri er Ásta Laufey Þórarinsdóttir á Gunnarsstöðum.
Af Viðarfjalli er gott útsýni yfir Þistilfjörð, Langanes og Melrakkasléttu. Þegar komið er að fjarskiptamastrinu og búið að skrifa í gestabókina sem verður komið fyrir í vörðunni norðan megin við skúrinn sem þar er að finna, er upplagt að ganga út á Geirlaugu, sem er núpurinn norðan í fjallinu. Það er hæsti punktur fjallsins, 369 m yfir sjávarmáli.
Tilnefning Viðarfjallsins er unnin í samstarfi við Ferðafélagið Norðurslóð og er gangan á laugardaginn á vegum þess. HSÞ og Norðurslóð hvetja fjölskyldur af öllum stærðum og gerðum til að mæta í gönguna.
Ganga á Hálshnjúk í Fnjóskadal sem er fjallið í sunnanverðri sýslunni þetta árið, verður auglýst síðar í vor.