Fjallgönguverkefnið 52 fjöll eða Eitt fjall á viku er nú komið í fullan gang. Þátttaka er að vanda mjög góð og hafa tæplega 100 manns skráð sig til þátttöku á árinu 2013. Hópurinn hefur nú þegar lagt fjögur fjöll að velli -eða að fótum sér og umsjónarmaður verkefnisins, Páll Ásgeir Ásgeirsson segir að hópurinn sé frískur, skemmtilegur og óðfús að takast á við þá skuldbindingu sem felst í verkefninu.
Fram að þessu hefur veður verið fremur hagstætt í fjallgöngum hópsins en ef fer að vonum mun hópurinn fá æfingu í að takast á við öll tilbrigði veðurs sem íslensk náttúra getur boðið upp á.
Þar sem skráningu er lokið munu leiðbeiningar um næstu göngur ekki birtast hér á síðunni heldur verða sendar hópnum í tölvupósti.