Góð þátttaka í draugaferð

20 manns tóku þátt í draugaferð FÍ í Hvítárnes og að Beinahóli um helgina undir fararstjórn Páls Ásgeirs Ásgeirssonar.

Hópurinn kom í Hvítárnes um kl. 1600 á laugardag og þegar menn höfðu komið sér fyrir í skála og hitað sér kaffi var farið í gönguferð um nágrenni skálans var farið í gönguferð. Gengið var inn á hinn forna Kjalveg sem liggur um hlaðið á Hvítárnesi og honum fylgt fram undir Hrefnubúðir. Rifjuðu menn upp búskaparsögu Hvítárness sem tengist mjög hinum svæsna draugagangi sem iðulega hefur orðið vart við á staðnum.

Síðan var gengið að stórum steini sem er við gömlu göturnar nokkuð vestan við sæluhúsið. Hann lítur út eins og álfakirkja með torfþaki og á honum er minningarskjöldur um Tryggva Magnússon, einn af stofnendum Ferðafélags Íslands, teiknara og listamann sem meðan annars hannaði skjaldarmerki Íslands.

Menn töldu sig finna sterka orkustrauma við steininn og þegar komið var að honum lokaðist fyrir allt samband við gervihnetti og því ekki hægt að taka GPS punkt við hann.

Síðan var haldið til skála og hituð kjötsúpa og settust menn kátir að snæðingi. Undir borðum voru sagðar draugasögur úr Hvítárnesi og víðar að og menn deildu reynslu sinni með öðrum. Síðan var kvöldvaka með ljóðalestri, draugasögum við kertaljós og skapaðist mjög mögnuð stemning í þessum elsta skála Ferðafélagsins meðan regnið og suðvestan vindurinn barði húsið utan.

Í skálanum er sérstök "draugakoja" og varð að ráði að fararstjóri svaf þar og svaf vært. Hið sama verður ekki sagt um alla því ein kona í hópnum vaknaði við mannaferðir, umgang og skvaldur sem enginn annar heyrði og sá í svefnrofum fólk á stjái í húsinu og fararsnið á því. Uppruni þess ónæðis er óútskýrður.

Daginn eftir settust menn að morgunverði að hætti gangnamanna sem var rótsterkt ketilkaffi dísætt og með því voru þykkar rúgbrauðssneiðar, mikið af smjöri og þverhandarþykk kæfa. Sagðar voru sögur af draugum og menn vitnuðu um eigin reynslu og annarra.

Síðan var ekið fram að Beinahól og hópurinn gekk að hinsta hvílustað Reynistaðabræðra. Veður var af suðaustri og gekk á með vaxandi rigningu en sól á milli. Tvær konur sem sneru við og héldu aftur að rútunni á undan hópnum sáu báðar dökkhærða konu með gleraugu sitja í tilteknu sæti í miðjum bíl og undruðust nokkuð. Þegar þær stigu um borð var aðeins bílstjórinn þar fyrir og hafði ekki orðið var við neina konu.

Hópurinn skilaði sér svo niður að Geysi um klukkan sex eftir vel heppnaðan leiðangur.