Gönguferðir alla sunnudaga hjá FÍ kl. 10.30

Á Vegginn mættu 6 gönguglaðir. Veðrið var yndislegt og var því ákveðið að ganga á Vífilsfell sem er 655 m.y.s.,  vegalengd 3 km., hækkun 400 metrar. 

Fjallið dregur nafn af öðrum tveggja þræla Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmanns Íslands. Ingólfur  kom fyrst  í könnunarleiðangur með fóstbróður sínum og mági, Hjörleifi Hróðmarssyni, en um 870 komu þeir til að nema land þó hefð sé að miða við 874. Ingólfur hafði verið gerður útlægur úr heimalandi sínu Noregi. Hann sendi þræla sína tvo Vífil og Karla til að leita öndvegissúlnanna sem þeir svo fundu við Arnarhvol í Reykjavík eftir þriggja ára leit. Á meðan bjó Ingólfur á Ingólfshöfða með konu sinni Hallveigu Fróðadóttur.  Þau fluttu svo að Arnarhvoli. Vífli gaf Ingólfur frelsi og setti hann niður bú að Vífilsstöðum.

Vífilsfell ber nafn eftir hann og Vífilsgata í Reykjavík. Vífill varð skilríkur maður. Karli var ekki var ekki sáttur og mælti: „Til ills fóru vér um góð héruð, er við skulum byggja útnes þetta." Hann hvarf síðan á brott og ambátt með honum. Á Smalaholti í vestanverðu landi Garðabæjar upp af Vífilsstaðavatni en á austasta hluta Kópavogs er landamerkjastöpull á háhæðinni þar sem er mikið útsýni . Í austur frá stöplinum er lág klapparhæð í holtinu mót Rjúpnahæð, hallandi undan til austurs að Rjúpnahæðinni þar sem er hæst mót austri. Þarna er gott útsýni allt til Vífilsfells. Þar sem klappirnar eru hæstar í holtinu er klöppuð mynd á vegginn af sitjandi konu á bæn. Myndin er vandlega gerð og inn með henni er sprunga - gott skjól - en austan við hana er litlll skúti. Sagt er að myndin hafi verðið gerð um fyrri hluta 20. aldar eða um hana miðja - ef til vill eftir berklasjúkling sam dvalið hefur á Vífilsstöðum . 

Sviði hét landnámsmaður er nam land á Álftanesi og kallaði bæ sinn Sviðholt. Sviði og Vífill reru saman á áttæringi þó bær Vífils væri í um einnar og hálfrar mílu fjarlægð frá  bænum Sviðholti en þaðan var stutt til sjávar og gekk hann ávallt heim og heiman í hvert sinn er þeir reru. Sagan segir að Vífill hafi ávallt gengið á Vífilsfell til að gá til veðurs áður en róið væri. Eitt sinn ákváðu þeir að búa til mið þar sem þeir yrðu best fiskvarir. Sviði kastaði heiman frá sér langlegg sem kom niður fjórar vikur frá landi en Vífill kastaði heiman frá sér öðrum langlegg og kom hann niður viku sjávar grynnra - nær landi enda mikill vega munur á.  Þeir kölluðu allt svæðið milli leggjanna Svið og mæltu svo um að þar skyldi jafnan fiskvart verða ef ekki væri dauður sjór í Faxaflóa og eru þarna fræg fiskimið Álftnesinga. En nú spyrja menn sig að því  hvort Vífill hafi gengið á Vífilsfell til að gá til veðurs eða á Smalaholt sem gæti hafa heitið Vífilsholt (fell) og er mikið skemmri leið og líklegri því litlar líkur eru á að Vífill hafi haft tíma til róðra eftir svo langa göngu. 

Veðrið var með eindæmum gott og eru orð Halldórs Laxness úr Heimsljósi best fallin til að lýsa ástandinu á Vífilsfelli á sunnudaginn þar sem Snæfellsnesið og jökulinn bar við himin í ljósi sólarinnar. Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu. Boggi og Maggi tóku myndirnar

Þeir sem gengu voru: Maggi Konn,Pétur Þorleifsson [spurning frá póstmeistara: af hverju er hann hvergi á mynd?],Sigurður Kristjánsson,Ólöf - BaddaBorgþór - BoggiOg Eygló, skýrsluhöfundur