Göngugleði 13. desember - ferðasaga
22.12.2009
Við gengum með ströndinni frá Straumi í Straumsvík. Er við komum að Óttarsstöðum undruðumst við mjög yfir þvílíku drasli sem þar var en skv. upplýsingum frá Hafnarfjarðarbæ er þarna um einkalóð að ræða og þykir þeim leiðinlegt að þetta skuli vera svona en þeir hafa ítrekað reynt að fá eigendur til að fjarlægja það. Við gengum áfram þar til við komum til móts við bæinn Lónakot sem er vestastur bæja í Hraunum en liggur ekki að sjó. Þar snerum við við og þræddum götu gegnum hraunið sem kom okkur á óvart að lá aftur að Straumi. Ég veit nú ekki hvað þessi gata heitir en þarna eru margar götur og hafa allar nafn. Við skoðuðum eyðibýli og tóftir og veltum fyrir okkur lífsbaráttu fólksins sem þarna bjó en það hafði viðurværi af sjósókn og fjárbúskap þó bæir væru landlitlir og þeir sem ekki voru við sjóinn fengu leyfi hjá þeim sem höfðu svokallað heimaræði að nýta lendingaraðstöðu þeirra. Á sumrum réðu menn sig í kaupavinnu. Hraunið þarna er um 4-5 þúsund ára gamalt og rann úr Hrútagjá nyrst í Móhálsadal sem er milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls og er hraunið kennt við Hrútagjárdyngju. Svæðið heitir Hraunin og er á náttúruminjaskrá. Leið okkar til baka lá fram hjá hlöðnum turnum sem sjást vel frá veginum og eflaust vekja forvitni margra er þar aka um. En þetta er einskonar hof og við það er bolli með áletruðum rúnum . Við spáðum í þetta og datt helst í hug Hof og Hlautbolli en þegar við komum aftur að bænum Straumi vorum við svo heppin að hitta listamanninn Hauk Halldórsson þar sem hann var að rífa niður bækur í bálköst og er við spjölluðum við hann við bálið reif hann James Patterson niður og spurði okkur hvort við ættum til bók sem ekki mætti brenna. Við vorum ekki sammála listamanninum en honum var held ég ekki alveg alvara, bara skemmtilegur. Halldór bauð okkur inn í húsið sem er listhús og er opið öllum alla daga. Þarna eru til sölu margir merkilegir hlutir sem hann hefur búið til ásamt sýningu á heimsmynd forfeðra okkar, Edduheimum. Haldin eru námskeið í galdri og margt að sjá frá Goðheimum svo sem stór stytta af Þór í vagninum sem stendur fyrir utan húsið og bíður dvalarstaðar. Haukur hannaði Heimskautagerðið sem hann er að reisa á Melrakkasléttu við nyrsta bæ Íslands, sem er Raufarhöfn, alveg undir eða við heimskautabaug þar sem er að finna hreinan sjóndeildarhring á landi, þannig að ekkert hindrar ljós sólar og tungls. Heimskautagerðið er tímatal árstíðanna byggt á gangi sólar og tungls. En Hofið sem við sáum er eldvé og heitir Brísingur sem þýðir eldur og bollinn er eldbolli og eru verk eftir Hauk. Þarna hafa verið framkvæmdar giftingar og skírnir að heiðnum sið. Fyrir utan húsið er Seiðhringur. Ekki er hægt að tíunda allt, sem við fræddumst um og sáum, í þessum pistli en að hitta Halldór þarna við bókabrennuna setti óneitanlega skemmtilegan blæ á ferð okkar Magga um Hraunin. Gangan mældist rétt tæpir 8 km og tók slétta 2 tíma + ½ tíma sem við eyddum með listamanninum. Veðrið var yndislegt, hlýtt en þó rigndi dálítið. Bestu kveðjurEygló pistilshöfundur og Maggi ljósmyndari (smellið hér til að skoða myndirnar)