Göngugleði 22. apríl

Sunnudaginn 22. apríl mættu 14 manns til göngugleðinnar. Ákveðið var að halda út á Reykjanes og ganga á stapafellið Geitahlíð (385 m) sem er suð-austan Kleifarvatns.

Við gengum fyrst upp á Stóru-Eldborg, sem er sunnan undir hlíðinni og einn af þessum formfögru gígum. Gangan upp á Geitahlíð sóttist vel, enda veður milt og úrkomulaust. Stór og mikill gígur blasti við okkur þegar upp var komið og gengum við umhverfis hann. Toppurinn heitir Æsubúðir og þaðan er mikið víðsýni. Kleifarvatnið blasti við og í norðri sást til höfuðborgarsvæðisins og Esjunnar. Í vestri virtum við m.a. fyrir okkur Arnarfellið og Sveifluhálsinn og í austri Gullbringu, Vörðufell og Brennisteinsfjöllin. Þegar augu okkar fylgdu strandlengjunni í suðri og til austurs, staðnæmdust þau við Hlíðarvatn og Þorlákshöfn.

Þar sem gustaði svolítið um okkur á toppnum ákváðum við að drekka kaffið að þessu sinni í skjóli. Við nutum kaffisins í grasbala sunnan í fjallinu sem nefnist Hvítskeggshvammur. Að því loknu gengum við á Litlu-Eldborg, en í dag er hún varla svipur hjá sjón eftir mikla efnistöku á árum áður.

Við héldum heim glöð í bragði og fegin því að þurfa ekki lengur að keyra í gegnum 11 hringtorg til að komast út úr Hafnarfirðinum. Auk gamalla áhangenda göngugleðinnar voru nokkrir að mæta í fyrsta skipti að þessu sinni.

Sigga Lóa