1. hluti
Það var fjölmmenni í Mörkinni 6 sl. sunnudag. En við vorum sex sem komum með skíði og héldum við í Bláfjöll en hinn hópurinn fór á Hellisheiðarsvæðið.
Lengst af leiðinni í fjöllin var lítinn snjó að sjá en þegar við komum að Suðurgili voru lyftur í gangi svo það lofaði nokkuð góðu. Það var nokkur norðanstrekkingur og frost þegar við lögðum upp en færið var gott þar sem brautirnar höfðu verið troðnar. Við gengum í sól og fallegu veðri upp á heiðina og nokkuð til austurs miðað við fyrri ferðir og höfðum ágæta útsýn yfir til Heklu og jökla. Það eina sem skyggði á göngugleði okkar var að jeppar höfðu ekið eftir brautinni (trúlega í skjóli nætur) svo erfitt var að fylgja sporunum og þurftum við því oft að skipta um spor !
En áfram héldum við og fengum okkur kaffi í skjóli fjallanna á bak við lyfturnar og bættust þar tveir í hópinn. Þar horfðum við á tilraunir ungmenna við að láta fallhlíf draga sig áfram á snjóbrettum. En við héldum áfram á okkar tveimur jafnfljótum og renndum léttilega niður því nú hafði troðarinn farið á undan okkur og lagað til brautina.
Við komum aftur að bílunum klukkan rúmlega tvö, sæl og ánægð með daginn.
Þeir sem tóku skiptisporin að þessu sinni voru:Eygló,Guðmundur Hv.,Magnús Konn.,Ólöf Sig.,Sæmundur,Erna,Páll ogÞóra.
Ritari: Ólöf Sigurðardóttir
2. hluti
Sunnudagsgangan 25. febrúar 2007.
Tuttugu garpar voru komnir í Mörkina kl. 10.30. Þar af 6 á skíðum. Þeir héldu til Bláfjalla og segir ekki meira af þeim.
Hinir héldu að Sleggjubeinsskarði og gengu þaðan í Innstadal að skála, sem kenndur er við Laugar og sagður byggður af Halldóri skíðamanni Matthíassyni.
Þar skildum við pokana eftir og gengum inn í hveragilið, sem skartaði sínu fegursta. Samspil frosts og gufu skapaði stórkostlegar ísmyndir á gróðri og grjóti.
Kaffi var drukkið á sólpallinum við skálann, þó að vindstyrkurinn hafi varla náð þeim staðli, sem lögboðinn er á nestisstað. Þaðan var haldið suður að Miðdal og vestur yfir Skarðsmýrarfjall. Eitthvað tognaði á lestinni, svo að minnsta kosti 2 hópar komu að bílunum úr ýmsum áttum um þrjúleytið. Allir virtust ánægðir með gönguferðina, enda sólskin allan tímann.
Þessir gengu:
Anna, Björg, Corenna, Elín, Grétar, Halldór, Hanna, Helga, Hjalti
(leiðsögumaður) Jóhanna, Sigurður, Sonja, Þórður og Þórunn.
Ritari: Sigurður Kristjánsson
Viðauki:
Póstmeistari, sem varð því miður að sitja heima, túlkar ofangreindar skýrslur svo, að í fyrri hópnum hafi verið 8 manns og 14 í hinum síðari, eða alls 22 manneskjur. Báðir ritarar telja hins vegar bara 6 manns í skíðahópnum.
Kann einhver skýringu á þessu misræmi?