Í glaðasólskini ákváðu göngugarpar sem mættu við Mörkina kl. 10:30 á sunnudagsmorgun að bjóða norðanstrekkingnum birginn. Þeir óku fyrst sem leið lá upp í Mosfellssveit og hófu göngu meðfram Skarðsá við göngubrúna neðst í Svínaskarði á milli Móskarðahnjúka og Skálafells.
Fyrst var gengið upp í háskarðið sem er í 480 m. hæð. Eftir dulítið matarstopp var fylgt snjólausum flákum eins og unnt var og ekki linnt göngu fyrr en við mastrið efst á Skálafelli. Það er í 780 m hæð.
Á niðurleiðinni hafði hlýnað mikið og sólin bakaði vorglaða garpa. Alls tók gangan 5 tíma og 30 mínútur. Hækkun var 630 m og lagðir voru að baki 9 km.