Síðasta sunnudag fyrir skammdegi, 9. nóv., mættu 12 á Vegginn og eftir nokkrar bollaleggingar um hvert halda skyldi var samþykkt tillaga Hafnfirðingsins Ingva Kristinssonar þess efnis að ganga umhverfis Selvatn sem er í fallegum undraheimi rétt fyrir ofan borgarmörkin.
Ekið var að eyðibýlinu Sólheimum, sem er í stefnu norðaustur af Geithálsi , en þar er nú hundaræktarstöð. Eftir smágelt var haldið inn með vatninu og að Árnakróki þar sem er gömul rétt og var brúkuð allt til aldamótanna 1900 að Hafravatnsrétt tók við. Síðan var sveigt til norðurs og yfir Urðarlágarlæk og stefnan tekin til vesturs ofan við og meðfram vatninu. Kaffi var drukkið í sumarbústað í eigu Ingvars en sá bústaður er eins og sumarbústaðir eiga að vera, lítill og notalegur. Áfram var síðan haldið með vatninu og að bílunum.
Göngutími var 3 ½ klst. Og vegalengd 7 km um sumpart þúfótt land. Veður var bjart með hlýjum kælingargjósti. Á leiðinni nutum við stórskemmtilegrar fræðslu Ingva sem þekkir mjög vel til þarna og var tvímælalaust maður ferðarinnar.
Þátttakendur voru: Bragi, Eiríkur, Erna, Eygló, Helga Garðars, Ingvi, Jón Tryggvi, Jónína Páls, Jónína Birgis, Maggi Konn., Ólöf Sig., Sæmundur.
Kveðja Nefndin.
Myndir: http://www.flickr.com/photos/ferdafelag/sets/72157608950689721/