Göngugleði á sunnudögum

Sunnudagsgönguskýrsla 26. október 2008.

Á vegginn mættu 5 félagar og 2 þeir bjartsýnustu voru með skíðin á toppnum.

Ákveðið var að reyna að finna skjólsælan stað í norðangustinum.

Ekið var sem leið liggur í Kópavoginn. Við Smáralindina skildu Kópavogsbúar bíla sína eftir ásamt skíðabúnaði og haldið var áfram á einum bíl til Hafnarfjarðar og að Kaldárseli.

Gengum í suðvesturátt meðfram Undirhlíðum. Þar er orðin vöxtulegur skógur á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Í skóginum sáum við nokkrar rjúpur, sumar komnar alveg í vetrarbúning, en aðrar nokkuð dröfnóttar ennþá. Einnig urðum við vör við kanínu- og músaspor svo nokkuð líf er greinilega í skóginum.

Er við komum að Bláfjallaveginum fórum við suður yfir Undirhlíðar og tókum kaffipásu hlémegin við lítinn klettavegg. Yfir rjúkandi kakóbolla fórum við að huga að örnefnum í kringum okkur. Sáum þá að Slysadalir voru til suðvesturs og Dauðadalir í suðaustur og fór þá að fara um okkur. Ákváðum þá að ganga í áttina að Helgafelli og treystum á að helgi fellsins myndi leiða okkur lifandi úr þessari göngu.

Komum aftur í bílinn eftir rúmlega 3ja tíma útivist og 9 km. göngu.

Þeir sem nutu þessarar hressandi útiveru voru Bragi, Jónína, Maggi Kon., Sigga Lóa og Sæmundur.

 

Myndir: http://www.flickr.com/photos/ferdafelag/sets/72157608503893592/