Göngugleði á sunnudögum - ferðasaga

Sunnudaginn 22. nóvember mættu nokkrir gangendur á vegginn. Eftir nokkrar umræður um ýmsar uppástungur og misheppnaðar tillögur varð að samkomulagi að aka upp að efnisnámum austan við Þormóðsdal, en þær eru sunnan undir Hulduhól (208 m). Ekki urðum við þó varir við huldukonu. Eftir stuttan hringakstur um námuna þar sem gefur að líta skemmtilegt stuðlaberg í námuveggjunum geislað í ýmsum útgáfum var bílnum lagt og gangan hafin inn Seljadal. 

Heiðskírt var og hiti nálægt frostmarki, freðin jörð, logn, en mistur í lofti benti til að ekki væri langt í strekkingsvind. Háspennulína liggur um dalinn og nutum við góðs af bílslóða er liggur meðfram henni. Nálægt dalbotni héldum við upp í Grímarsfell (eða Grímmannsfell) og þar sem Hornstrandaleiðtoginn var hvergi nálægur leyfðum við okkur að drekka í skjólgóðri laut á móti sólu, en er hér var komið var komin örlítil gola, dálítið nöpur. 

Eftir hvíld, næringu og spjall var haldið á Háahnúk, en þar er Grímarsfellið hæst (484 m) og notið útsýnis til Hátinds Esju, Móskarðahnúka og næstum hvítra Botnssúlna og Kálfstinda þar talsvert sunnar og lengra í burtu. En nú var moldarmistrið orðið svo mikið að ekki sást til Hengils, Vífilfells né Bláfjalla og mátti sjá á gervitunglamynd er sjónvarpsveðurfræðingurinn sýndi okkur um kvöldið að það átti upptök á svæðinu fyrir sunnan Langjökul, við Hagavatn og þar í kring og vorum við í ótrúlega miklu skjóli frá Esjunni því aðeins var gola þarna uppi. 
Frá Háahól gengum við SSV yfir fellið og niður þar sem er merkt Nessel á korti, en ekki rákum við augun í nein merki um sel þar. Komum í bílinn eftir 3 klst. og 3 stundarfjórðunga og höfðum lagt að baki um 12 km. 
 Sérlegur myndasmiður mætti ekki að þessu sinni og því engar myndir teknar, því miður.

Kær kveðja,
Bragi Hannibalsson
Skyggnir.