Göngugleði - ferðasaga - 25 mars

Mættir voru 17 manns, 10 með skiði og 7 án þeirra.  Þeir skíðalausu héldu í Búrfellsgjá og eru þeir þar með úr sögunni. Skíðafólkið hélt í Bláfjöll að vanda. Stoppað var austan við Eldborgina og skíðin tekin af og haldið af stað. Þá var hörkurok, þoka og bleituhríð, eitt hið vesta veður sem getur. Haldið var upp undir fjöllin í leit að skjóli. Síðan gengið norður með hlíðinni og upp í Draumadalagil í átt á Himnaríki ( gamla skálanum sem nú eru rústir einar ) Eftir nokkurn stans var haldið til baka sömu leið móti hvössum vindi og mikilli úrkomu. Haldið var suður í Eldborgargil og þaðan niður að Eldborginni til bílanna. Þangað var komið eftir tveggja tíma barning í aftaka veðri. Göngumenn voru þó hinir hressustu, eða létu allavega svo, þó svo flestir væru blautir inn að skinni. Þeir sem blotnuðu voru: Bragi Hannibals, Elsa, Hjalti Gunnars, Jónína Páls, Lára, Maggi Konn, Páll Ólafs, Sigga Lóa og Þóra.  Pétur skilaði inn sögunni.

peturskjaldbr

Pétur Þorleifsson, mesti fjallarefur landsins, hefur gengið á yfir 550 fjöll og er enn að og mætir alltaf í göngugleði FÍ á sunnudögum.