Göngugleði - ferðasaga 28. des

Sunnudaginn 28. des. mættu fimm jólalegir garpar í Mörkina, tilbúnir að ganga sér til heilsubótar eftir jólahátíðina.

Við lögðum bílnum skammt frá kirkjunni í Brautarholti á Kjalarnesi og héldum í áttina að Presthúsatöngum en þar ganga reisulegir drangar út í sjó.  Síðan gengum við með ströndinni í átt að Nesvík og tókum kaff eftir rúml. klukkustundar göngu. Áfram héldum við með ströndinni framhjá gömlum rústum og að Borgarvík. Þar beygðum við í áttina að Brautarholtsborg, gengum á hana (47 m !) og síðan í áttina að bílnum.

Þarna er mjög fjölbreytt gönguland og gengum við um víkur og voga, fram á sjávarbökkum, stikluðum á sjávargrjóti, framhjá kistum og kirfum sem sjórinn hefur sorfið til líkt og finna má á Hornströndum.  Sáum álfaborgir og höll sjávarguða, einnig tröllkarla og kerlingar af ýmsum stærðum og gerðum.

Rifjuðum upp það sem við mundum úr Kjalnesingasögu. Sáum ýmislegt forvitnilegt í fjörunni sem rekið hafði á land allt frá leikfangaboltum til fiskiræktargirðingar.

Gangan tók um  þrjá tíma og gengum við alls um átta kílómetra í ágætu veðri sem hélst að mestu þurrt. Við kvöddum Siggu Lóu með virktum en hún fer til Argentínu í byrjun janúar til að ganga á hæsta fjall landsins, Aconcagna (6959 m) og fáum við vonandi fréttir af ferðinni síðar.

Þessi tóku þátt í síðustu Göngugleði ársins: Bragi, Jónína, Eygló, Ólöf Sig. og Sigga Lóa.

ÓS