Sunnudaginn 4. febrúar héldu 7 skíðagönguglaðir og tveir án skíða í Bláfjöll. Veðurútlit var gott, skilti við Geitháls gaf til kynna logn og 3° frost. Við lögðum upp frá efsta skíðaskálanum og veitti það öryggistilfinningu að sjá hjálparsveit á leitaræfingu með björgunarhunda sína því nokkur þoka lá yfir fjöllunum.
Fljótlega mættum við einum árrisulum félaga okkar sem hafði í raun troðið leiðina fyrir okkur. Við héldum okkur nálægt fjöllunum að norðanverðu því þar var nægur sjór og færið gott. Á leiðinni upp fengum við á okkur él, en áfram héldum við upp í krikann bak við fjöllin og tókum þar nestisstopp. Á leiðinni hittum við fyrir einn sem umsvifalaust var sjanghæ-aður í hópinn til að laga fjöldatöluna til. Við héldum aðeins áfram upp á brúnirnar en lítið var um útsýni í norðurátt vegna þoku. En þegar við snerum við til baka hafði létt til og það stirndi á snjóinn í sólskininu og við vorum ein í heiminum því fáir aðrir voru þarna á ferli.
Við renndum okkur í rólegheitum niður og komum að bílunum aftur um 14:15 alsæl með daginn. Vorum við hissa á því að hitta ekki fleiri á gönguskíðum því veður og færi var eins og best verður á kosið.