Göngugleði - ferðasaga 6. desember
14.12.2009
Sunnudaginn 6. desember mættu göngugarpar á vegginn í Mörkinni. Þar sem roðinn í austri gaf fyrirheit um bjartan og fallegan dag, kom ekki annað til greina en að ganga á gott útsýnisfjall og var Skálafell (574 m) á Hellisheiði fyrir valinu.
Fyrsti áningarstaður á göngunni var við borholurnar skammt frá Hverahlíð, en þar gat að líta skemmtilegar klakabrynjur á mannvirkjum, sem höfðu myndast vegna gufunnar sem hafði þurft að láta undan frostinu. Hverahlíð er talin vera brún á dyngju frá síðasta jökulskeiði og Skálafell er móbergshryggur frá sama tíma. Við gengum upp á fellið þar sem heita Norður-Hálsar. Það var gott að fá desembersólina í andlitið þegar við komumst upp fyrir brún.Við nutum útsýnis yfir Suðurlandsundirlendið, ósa Ölfusár og út yfir Reykjanesskagann. Snæfellsjökull krýndi hafflötinn og Esjan var böðuð bleikri birtu. Við héldum niður af fellinu að vestanverðu og drukkum kaffi í Trölladal sem telst vera gígur. Leið okkar lá síðan um Vestur-Hálsa með viðkomu á hverasvæðinu undir Hverahlíðinni. Við komum aftur að bílnum eftir tæplega þrjá og hálfan tíma og 8 km göngu í himnesku desemberveðri. Þegar göngu var lokið ókum við um og skoðuðum virkjanaframkvæmdir Hellisheiðarvirkjunar, sem eru miklar að vöxtum eins og kunnugt er.
PS. Póstmeistari biðst forláts á töfum við útsendingu skýrslunnar.