Ferðasumarið framundan er spennandi. Ég er strax farin að leggja drög að ferðalögum sumarins og heilar fjórar vikur verð ég úti á landi sem fararstjóri, fyrst á Hornströndum í þrjár vikur og síðan í ferð um Tröllaskagann sem er heillandi svæði til hvers konar gönguferða, en fáfarið, segir Sigríður Lóa Jónsdóttir.
Sigríður Lóa hefur tekið virkan þátt í starfi Ferðafélags Íslands til fjölda ára. Í sínar fyrstu ferðir með félaginu fór hún um 1970, þá tæplega tvítug, en kom svo inn í starfið af fullum krafti fyrir um fimmtán árum. Ferðalögin gefa mér ákaflega mikið og sumir í hópi vina minna og ættingja tala um göngugleði með ákafa, þegar ég á í hlut og það má kannski til sanns vegar færa. Á þeim árum sem ég hef stundað útivist hefur ferðamenning landans tekið miklum breytingum og þátttakan er mun almennari en var. Starf ferðafélaganna hefur þar haft sín áhrif, samgöngur eru meiri og svo spyrst líka út hvað svona ferðir eru sérdeilis skemmtilegar. Þá hefur umræða um virkjunarkosti og auðlindanýtingu vakið marga til umhugsunar um mikilvægi þess að halda í óspillta náttúru.
Björg, víkur og firðir
Fyrsta ferð þessa sumars sem Sigríður Lóa fer fyrir, er um Hornstrandir dagana 23. júní til 30. júní og ber yfirskriftina Björg, víkur og firðir, þar sem ferðast verður um stórbrotin fuglabjörg, fallegar víkur og tilkomumikla firði við ysta haf. Farþegar koma á eigin vegum í Norðurfjörð á Ströndum þaðan sem er siglt í Hornvík, en náttstaðir í ferðinni eru í Látravík, Bolungarvík og í Reykjarfirði. Þann 2. júlí er Sigríður Lóa svo aðstoðarfararstjóri í annarri Hornstrandaferð sem ber heitið Langavitleysa hin meiri. Sú ferð er alls ellefu dagar, en tilefni hennar eru sextugsafmæli Guðmundar Hallvarðssonar Hornstrandajarls og 80 ára afmæli Ferðafélags Íslands í haust. Þetta er með lengri og viðamestu ferðum um Hornstrandir sem efnt hefur verið til, enda verður víða komið og mikið um veisluhöld.
Hornstrandir eiga í mér hvert bein. Saga svæðisins og lífsbaráttan sem fólk háði þarna við ysta haf er mér hugleikin og sömuleiðis hefur náttúrufegurðin þarna fangað huga minn; há björg, gróðurinn, dýralífið, fuglinn í björgunum og urtubörnin á útskerjum, segir Sigríður Lóa.
Þriðja ferðin á sumri komanda þar sem Sigríður Lóa er fararstjóri er um Fljót og Tröllaskaga dagana 14. til 18. júlí. Þetta er fjögurra nátta ferð þar sem allan tímann verður gist á bænum Bjarnargili í Fljótum, þar sem er ferðaþjónusta. Þaðan verður haldið í dagsferðir til ýmsra áhugaverðra staða í nágrenninu, meðal annars gengin Botnaleiðin svokallaða frá Siglufirði til Fljóta, gengið á fjallið fyrir ofan Bjarnargil sem heitir Holtshyrna, á Grænuvallahnjúk sem er á milli Fljóta og Héðinsfjarðar og farið í Pílagrímsferð úr Fljótum til Hóla í Hjaltadal, svonefnda Hólamannaleið. Ferðinni líkur svo með skoðunarferð og sögufræðslu í Haganesvík í Fljótum, sem er gamall útgerðar- og verslunarstaður. Fararstjóri með Sigríði Lóu í þessari ferð er Trausti Sveinsson, bóndi á Bjarnargili.
Frábær forvörn
Síðustu misserin hefur verið bryddað upp á ýmsu nýmæli í annars fjölþættu starfi Ferðafélags Íslands. Þar má meðal annars nefna morgungöngur eina viku í maímánuði og svonefnda göngugleði á sunnudagsmorgnum yfir vetrartímann. Sigríður Lóa hefur verið meðal virkustu þátttakenda þar og segir hún göngugleðina vera að festa sig æ betur í sessi. Hvert haldið sé ráðist af veðri hverju sinni, en meðal annars hafi verið farið víða um á Reykjanesi, upp á Mosfellsheiði, í Hvalfjörð og í Hengilinn. Þátttakendur í þessum ferðum eru á öllum aldri, en það er ekki síst mikilvægt að ná til unga fólks enda eru gönguferðir og útivera frábær forvörn, segir Sigríður Lóa.