Sunnudaginn 9. des. kom ekkert annað til greina en að fara á gönguskíði. Það var nægur snjór og gott færi til þeirrar iðkunar á Bláfjallasvæðinu. Við gengum þennan hefðbundna hring sem að þessu sinni var ekki troðinn. Það var nánast logn mestallan tímann og sólarlaust, en góð fjallasýn.
Þegar við nálguðumst Kerlingarhnjúk var hóað í okkur. Það reyndist vera lítill hópur Útivistarfélaga sem sum okkar könnuðumst við. Okkur var boðið upp á hollenskar piparkökur að hætti Marrittar hjólagarps. Við vorum aftur komin að bílunum eftir rúmlega 10 km. göngu sem tók 3 klst. með tilheyrandi mynda- og kaffistoppum.
Pétur Þorleifsson mætti auk okkar á Vegginn (Mörkina 6) og réð okkur heilt, en hann hafði farið á gönguskíði daginn áður, en var nú spariklæddur á leið á kirkjutónleika.