Göngugleðin - ferðasaga

Göngugleðin 28.jan. 2007  - skýrsla frá Braga Hannibalssyni 
 
Göngugleði skíði 500
mynd úr göngugleði fyrr í vetur - þegar snjór og sól dönsuðu saman með göngugörpum FÍ.

Sunnudaginn 28.01. hittust nokkrir göngugarpar á planinu við Mörkina 6. Það er logn, lágskýjað,en þurrt og milt veður. Lágþokubakki lá yfir Sundunum og annar teygði sig niður úr Heiðmörk yfir Elliðavatn. Sem sagt ró yfir veðrinu. 

Þegar kom að því að ákveða hvert skyldi halda voru flestir sparir á tillögur,enda hógvært fólk, svo að sá er þetta ritar setti þá fram þá snilldarhugmynd (að honum sjálfum fannst) að við skyldum aka að suðurenda Kleifarvatns og ganga þaðan til austurs upp í Brennisteinsfjöll og var það strax samþykkt mótatkvæðalaust. 
  
Þegar kom suður yfir Vatnsskarð kom í ljós að á fyrirhugaðri gönguleið var sunnan blástur,rigning og þoka og augljóslega betra veður norðan megin á Reykjanesskaganum. Var því ákveðið að aka norður yfir Vatnsskarð aftur og ganga á Fjallið eina.(Meira að segja var skýrsluhöfundur strax samþykkur þessu og hefur hann þó orð á sér fyrir að vera tregur til að skipta um skoðun,svo ekki sé dýpra í árinni tekið.). 
  
Við ókum inn á Djúpavatnsafleggjarann og lögðum bílunum á fyrsta útskoti. Gengum þaðan á Sandfell 262m og virtum fyrir okkur hina sérkennilegu Hrútagjá suðvestan fjallsins. Síðan gengum við norður á Fjallið eina 223m og settumst niður í góðu skjóli við hæsta hnjúkinn og nutum þess er malpokar okkar höfðu upp á að bjóða. Eftir næringu og rabb gengum við niður fjallið, en um tíma var farið að hvarfla að okkur að við værum búin að ganga alla leið niður til Íraks því hver byssuhvellurinn rak annan, en einhverjir þurftu að æfa skotfimi sína þarna í hrauninu. Leið okkar að bílunum lá í gegnum gamalt námasvæði og fannst okkur að viðskilnaður þeirra, er þarna höfðu tekið efni, hefði mátt vera betri. 

Í bílana komum við kl. 13:40, hress og endurnærð og höfðum þá verið réttar tvær og hálfa klukkustund á göngu.
 
 Þeir sem nutu voru:  Bragi, Eygló, Lára, Maggi Konn, Pétur og Tarmila