Göngugleðin - ferðasaga

Sunnudagsganga 20. janúar 2008.

Við höfuðstöðvar FÍ hittust 8 gönguskíðagarpar í fjögurra stiga frosti en blíðu veðri.  Haldið var á Heiðmörk og staðnæmst við Elliðavatnsbæ.  Einn bíll var fyrir á stæðinu kl. 11:02 er við héldum af stað í leit að lofaðri troðinni göngubraut sem ekki fannst.  Fundum þó slóð meðfram Helluvatni og héldum hana og svo áfram í gegnum skóginn, um Undanfara, en svo heitir reiturinn þar sem fyrst var plantað trjám á Heiðmörk árið 1949.  Höfðum við ekki lengi farið er stálsleginn færibandingi með framskíði, kom fretandi á eftir okkur og dró stálfætur á eftir sér til troðslu göngubrautar.  Undir kunnuglegu reiðhjólastýri sat hjálpsamur nýliði, sem dró upp kort af óteljandi hugsanlegum gönguleiðum okkur til leiðbeiningar.  Fylgdum við nú flestum leiðum um skóginn, út og suður, upp og niður, vinstri og hægri.  Mikið var kvartað undan kaffiþorsta aftast í röðinni, en ávallt var bent á betri stað framundan.  Borðið sem lofað var við Ferðafélags reitinn fannst hvergi og var þar tekin „klögumynd“ sem ekki hefur sést síðan.  Ferðafélag Íslands var einn af frumherjunum í plöntun trjáa á Heiðmörk og var þessum reit úthlutað til félagsins við vígslu Heiðmerkur árið 1950.

Loks fundum við svo Thorgeirsstaði, norska bústaðinn, sem er eina húsið sem byggt hefur verið á Heiðmörk.  Húsið, eða „hyttan“, eins og Norðmenn nefna það, var upprunalega byggt árið 1954.  Það brann svo fyrir nokkrum árum, en var þá endurreist.  Norðmenn fengu byggingarleyfi þarna, því þeir voru frumkvöðlar að plöntun trjáa í áðurnefndan Undanfara árið 1949, en fyrstu trén komu frá Troms í Noregi.  Ekki bragðaðist langþráð nestið verr fyrir það, sem nú var notið í snjónum á verönd Thorgeirsstaða og nutu sumir lengur en aðrir.

 

Fullir af nýjum þrótti héldu svo kappar af stað á ný og köfuðu snjóinn út á troðnu brautina.  Svo vígalegur var hópurinn, að er við á vegamótum mættum manni, krafðist hann þess að fá að taka mynd af svo óviðjafnanlega fríðum hópi.  Veittist honum það leyfi, með því skilyrði að hann sendi myndina, sem enn hefur þó ekki borist skrifara, á „fí att fí púnktur iss“.  Vonandi finnst hún þar, svo útsendari þessa pistils geti hengt hópmyndina hér við.

 

Var nú komin heimþrá í suma, svo brunað var eftir vegarköntum.  Var „sumum“ þó loks snúið af villu síns vegar og haldið var um víðáttur Heiðmerkur og skógarkjarr, þar til komið var til baka á slóðina meðfram Helluvatni og Elliðavatnsósi og loks heim að Elliðavatnsbæ á ný kl. 14:55 að lokinni næstum fjögurra stunda göngu um 11,8 km langar skíðabrautir Heiðmerkur.  Brá nú svo við að nú voru troðnar skíðabrautir í alla áttir, þar sem engin fannst áður og bílastæðið yfirfullt af bílum.

 

Aðeins sjö af átta sem upp lögðu, skiluðu sér á leiðarenda, því undan einum brotnaði búnaðurinn og var hann skilinn eftir í skíðabrautinni þar sem limafesting gaf sig.  Þetta þótti ekkert tiltökumál, því aðeins var um 12% þátttakenda að ræða.  Og hvað munar um einn í sláturtíðinni? - Fundust nú tvær hvítar friðarveifur undir vinnukonum tveggja „súkkanna“, sem túlkað var svo, að viðkomandi hefði ekki orðið úti.  Var því haldið heim og fréttist þar að viðkomandi hafði komist í heimahús sitt heilu og höldnu.

 

 

Njótendur ferðarinnar voru:  Arnbjörn, Árni, Edda Ö., Eiríkur, Eygló, Guðmundur, Jakob og Sigga Lóa.

 

 

          Með sérstakri skíðakveðju,

          frá skipuðum skrifara, Joðihá.

E.s.

Enn hafa myndir úr ferðinni ekki borist til skrifara, hvorki "klögumynd" né hópmynd sjálfskipaðs hópljósmyndara, þrátt fyrir langa bið eftir þeim.   Hér með er lýst eftir myndunum!

 

Eftirmáli:

Ef ykkur var ekki þegar kunnugt innihald þessarar skýrslu, skrifast það á skort á hugarafli, því skýrslan var skráð svo rækilega í huga mér, strax að aflokinni göngu og send út af þvílíku hugarafli, að mér dauðbrá þegar auglýst var eftir henni og mér varð þá ljóst að tími hugaraflssendinga, eða að minnsta kosti móttöku þeirra, er enn ekki upprunninn.  En sá tími getur ekki verið langt undan í allri þessari tækni nútímans.  Til öryggis sendi ég ykkur því þetta hér með í tölvupósti.

          Með hugarflugs-kveðju,

          frá Skriffinni.