Göngugleðiskýrsla 7. des

Það var lítill en einbeittur hópur sem hittist í Mörkinni til göngu sunnudaginn 7. desember. Í takt við síðustu sunnudagsgöngur, þar sem hefur verið gengið í kringum tiltekin fjöll, var ákveðið að hringganga Helgafellið. Það tókst þó ekki að þessu sinni þar sem hin ótal hringtorg í Hafnarfirði gerðu það að verkum að við villtumst af leið og lentum á Krísuvíkurveginum.

Ný áætlun var því gerð í skyndi. Keyrt var í Vatnsskarð og þaðan gengið á Sveifluhálsinn. Eftir stutta göngu blasti við fádæma gott útsýni allan fjallahringinn, allt frá Akrafjalli, til Hengils, Bláfjalla og Keilis. Veður var fjölbreytt, lengstum sól og hægviðri, en af og til skullu snarpir hríðarbylir á okkur, sem gengu fljótt yfir.

Við drukkum kaffi utan í svokölluðum Hellutindum og nutum þess að horfa yfir Kleifarvatnið sem breytti sífellt um lit í samræmi við umskiptin í veðrinu. Við héldum til baka um Foldadali og virtum fyrir okkur skemmtilegar kynjamyndir sem samspil snjós og kletta kallaði fram. Á einum stað var engu líkara en að risavaxin manneskja hefði lagst til hvílu þvert yfir dalinn.

Við komum aftur að bílnum eftir rúmlega þriggja klukkustunda göngu sem var um 8 km. löng.

kveðja, Sigga Lóa, Maggi Konn og Eygló.