Tveir fjallgönguhópar Ferðafélags Íslands, sem luku gönguverkefnum sínum nú í vor, fara af stað aftur í haust. Þetta eru hóparnir Alla leið og Fyrsta skrefið. Kynningarfundur verður haldinn eftir Verslunarmannahelgi þar sem verkefnin og dagskrá þeirra verður kynnt.
Fjallgönguverkefnunum Alla leið og Fyrsta skrefinu lauk fyrir skemmstu en báðir hóparnir byrjuðu að ganga saman eftir áramót og luku við áætlun sína nú í vor. Þátttakendur stóðu sig með miklum sóma og unnu hvern sigurinn á fætur öðrum. Bæði þessi verkefni fara aftur af stað nú síðsumars en ekki er nauðsynlegt að fólk hafi tekið þátt í vorgöngunum til að slást í hópinn í haust.
Gönguhópurinn Fyrsta skrefið er hugsaður fyrir þá sem eru að taka fyrsta skrefið í fjallgöngum eða vilja vera í hópi þar sem lögð er áhersla á að fara rólega. Gönguhópurinn Alla leið er verkefni þar sem fjöllin og fjallgöngurnar eru meira krefjandi og þátttakendur eru tilbúnir til að taka vel á því. Í báðum verkefnum er lögð áhersla á fræðslu, náttúruupplifun, kennslu í útivist og öryggi á fjöllum.
Fátt er heilnæmara en að stunda reglulega útivist og í svona fjallgönguverkefnum kynnist fólk vel og eignast nýja vini og göngufélaga. Reynslan hefur sýnt að hóparnir bindast traustum böndum og stunda útivist og göngur saman, jafnvel mörgum árum eftir að formlegri dagskrá á vegum Ferðafélags Íslands lýkur.