Eins og kannski mörg vita þá er Ferðafélag Íslands bæði á Facebook og Instagram. Við höfum undanfarið verið að setja meira efni inn í hápunkta (highlights) á Instagram og þá helst umfjallanir um skemmtilegar gönguleiðir. Þar er að finna meðal annars umfjöllun um leiðina að Grænahrygg um Halldórsgil sem var stikuð á síðasta ári og hringinn á Bláhnúk um Laugahraunið. Þá er einnig að finna þar umfjöllun um göngu á Merkurranann og Tindfjallahringinn í Þórsmörk sem og Fimmvörðuháls. Við vekjum líka sérstaka athygli á leiðinni á Hátinda í Goðalandi við Þórsmörk en það er ganga sem var eitt sinn afar vinsæl en færri hafa gengið undanfarin ár. Þá leið er þó betra að fara þegar það er tiltölulega lítið í Hvanná ætli fólk sér að ganga úr Langadal.
Vonandi hefur fólk gagn og gaman að þessum umfjöllunum sem gefa aðeins mynd af því hverju má eiga von á sé farið á viðkomandi slóðir.