Bakskóli Ferðafélags Íslands byrjar í næstu viku og stendur til jóla. Um er að ræða göngur, sund, jóga og léttar fjallgöngur fyrir fólk með bakvandamál og ýmis önnur stoðkerfisvandamál svo sem verki í mjöðmum eða liðagigt. Verkefnið hentar líka eldri borgurum.
Bakskólinn stendur frá 26. september til 15. desember 2016 og allir eru velkomnir á kynningarfund sem haldinn verður nú á fimmtudaginn 22. september kl. 20 í sal FÍ, Mörkinni 6.
Fjölmargir sem hafa átt við bakveiki og stoðkerfisvandamál að stríða hafa náð undraverðum árangri og bata með góðri hreyfingu, æfingum og fjallgöngum. Í Bakskólanum verður farið léttar gönguferðir tvisvar í viku, á mánudögum og miðvikudögum kl. 20 og farið í jóga eða sund í hádeginu á föstudögum.
Smám saman byrjar svo hópurinn að fara í léttar fjallgöngur og stefnt er að þremur til fjórum fjallgöngum á tímabilinu. Þá verður gengið á fjöll í nágrenni Reykjavíkur eins og Úlfarsfell, Mosfell og Helgafell. Þær göngur verða skipulagðar með það í huga að þátttakendur geti farið eins hátt og langt og þeir treysta sér til - ekki verður nauðsynlegt að fara alla leið á toppinn.
Verkefnið er einstaklingsmiðað og það fer eftir því hvar fólk er statt, hversu mikið það gerir og gengur. Samhliða göngunum fær fólk svo ráðgjöf um hreyfingu og æfingar.
Opnar æfingar fyrstu vikuna
Bakskólinn er lokað verkefni en æfingar fyrstu vikunnar eru opnar fyrir alla til að koma og prófa. Í næstu viku, mánudaginn 26. og miðvikudaginn 28. september kl. 20 hittist hópurinn við Toppstöðina í Elliðárdal þaðan sem genginn verður hringur um dalinn. Byrjað er á upphitun og í miðri göngu verður farið í stöðuleikaæfingar og svo teygjur í lokin. Á föstudaginn 30. september kl. 12 hittist hópurinn svo í sundlauginni í Æfingastöðinni Háaleitisbraut 13 þar sem gerðar verða æfingar í vatni.
Umsjónarmaður verkefnisins er Bjarney Gunnarsdóttir, íþróttafræðingur.
Þátttaka kostar 40.000 krónur fyrir félagsmenn FÍ en 47.400 fyrir utanfélagsmenn.