Göngur um Langanesbyggð og nágrenni

Ferðafélagið Norðurslóð stendur fyrir göngu á Gunnólfsvíkurfjall á Langanesi föstudaginn 16. júlí nk. Safnast verður saman við veginn á fjallið austarlega á Brekknaheiði kl. 16:00.

Tveimur tímum seinna eða kl. 18:00 mun fróður maður segja fólki frá því sem fyrir augu ber uppi á fjallinu.  Gunnólfsvíkurfjall er einkar tignarlegt þar sem það rís beint úr sjó upp í 719 m hæð og þaðan er ægifagurt útsýni. Í góðu skyggni sést þaðan allt suður til Herðubreiðar og Dyngjufjalla.

Á fjallinu er ratsjárstöð. Nánari upplýsingar hjá umsjónarmönnum göngunnar, Ástu Laufeyju Þórarinsdóttur 860-7738 og Hrafngerði Elíasdóttur 893-3608.Sunnudaginn 18. júlí verður gengið með leiðsögn um söguslóðir Höllu og heiðarbýlisins á Melrakkasléttu.

Gengið verður að Hrauntanga og komið við í Kvíaborgum. Mæting við sæluhúsið á Öxarfjarðarheiði kl. 9:00.Gangan er hluti af dagskrá sem tileinkuð er ævi og verkum Jóns Trausta.

Menningarsamkoman Inn milli fjallanna verður haldin í Svalbarðsskóla í Þistilfirði kl. 14:00, með söng, þjóðdansi og kaffiveitingum. Kristjana Arngrímsdóttir og Kristján Eldjárn frá Tjörn flytja þjóðlög, vísur og þekkt sönglög.

Nánar á www.ytra-aland.is

Göngurnar eru liður í fjölskylduhátíðinni Kátum dögum í Langanesbyggð og nágrenni. Ýmsir viðburðir og skemmtun verða á svæðinu frá 13. – 18. júlí. www.langanesbyggd.is