Gönguskálinn Trölli

Trölli fluttur á sinn stað í mars 1984
Trölli fluttur á sinn stað í mars 1984

Í gegnum tíðina hafa margar hendur lagt hönd á plóginn við uppbyggingu Ferðafélags Íslands og deilda þess.

Líklegast væru fáir fjallaskálar á Íslandi í dag ef ekki hefði komið til ómældrar vinnu og ósérhlífni fjölda sjálfboðaliða um land allt.

Í fjallendinu á milli Skagafjarðar og Austur-Húnavatnssýslu stendur Trölli, einn af skálum Ferðafélags Skagfirðinga.

Í mars árið 1984 var Trölli dreginn á sleða aftan í jarðýtu, inn Kálfárdalinn og að Tröllafossi þar sem hann stendur enn.

Margir komu þar að verki en á engan er hallað þegar nafn Friðriks A. Jónssonar er sérstaklega nefnt. Friðrik var einn af stofnendum Ferðafélags Skagfirðinga og burðarás í starfsemi félagsins um langt skeið.

Á myndinni hér að neðan má sjá þá Ingvar Sighvatsson og Friðrik Jónsson leggja undirstöðurnar fyrir Trölla í nóvember 1983.

Unnið við undirstöður Trölla

Mikið er um tröllaörnefni í nágrenni skálans. Hann stendur við Tröllafoss í Tröllabotnum, ofan Trölleyra, skammt frá Tröllahálsi og yfir öllu gnæfir Tröllakirkjan. Það var því einboðið að skálinn hlyti nafnið Trölli.

Trölli var upphaflega byggður úr krossviði, en hefur nú verið klæddur að utan með svokallaðri steni klæðningu. Alls geta 16 manns sofið í skálanum og hér má nálgast frekari upplýsingar um þennan fína gönguskála.

Trölli

 Trölli, eins og hann lítur út núna.