FÍ hefur ákveðið að ráða sérstaka göngustjóra til vinnu á Laugaveginum næsta sumar. Hlutverk þeirra verður að ganga á milli skála, aðstoða göngufólk, leiðbeina og hjálpa. Búist er við að þetta fólk komi úr röðum þeirra 50 skálavarða sem starfa á vegum FÍ yfir sumartímann.
Þetta kemur meðal annars fram í ítarlegu viðtali við Pál Guðmundsson, framkvæmdastjóra FÍ, í Morgunblaðinu. Þar er líka fjallað um fjölda þeirra sem ganga þessa langvinsælustu gönguleið á Íslandi en alls gengu um 12 þúsund manns Laugaveginn í sumar sem er örlitlu minna en sumarið 2016 sem var metár.
Mikill meirihluti þeirra sem gengur Laugaveginn er útlendingar eða um 95%. Alls eru 56% göngumanna á vegum ferðaskrifstofa, hátt í 20% ganga Laugaveginn í öðrum skiplögðum gönguhópum og um 30% ferðast á eigin vegum.
Ferðafélag Íslands hefur kynnt hugmyndir um að breyta Laugaveginum í einstefnu, þannig að aðeins verði gengið úr Landmannalaugum og niður í Þórsmörk. Þá leggur FÍ til að sett verði upp nokkurs konar öryggishlið þannig að enginn fari inn á Laugaveginn öðru vísi en að sýna fram á að viðkomandi hafi bókaða gistingu og réttan búnað og jafnframt að umferð verði stjórnað með ítölu, það er að takmarkað verði hversu margir séu á göngu hverju sinni.