Grænlandsferð FÍ og Trex

TREX-Hópferðamiðstöðin (frétt)

Gönguferð á slóðum norrænnar byggðar á Grænlandi 20. - 27. júlí

Trex-Hópferðamiðstöðin í samvinnu við Ferðafélag Íslands efnir til spennandi gönguferðar á slóðum norrænnar byggðar á Grænlandi 20. - 27. júlí næstkomandi undir leiðsögn Jóns Viðar Sigurðssonar.  Í þessari einstöku ferð gefst kostur á að kynnast fjölbreyttu náttúrufari Suður-Grænlands og sögu norrænnar byggðar um leið. Flogið verður til Narsarsuaq og haldið þaðan til Igaliko eða biskupssetursins að Görðum þar sem gangan hefst. Frá Igaliko er gengið til Qaqortoq, stærsta bæjar á Suður-Grænlandi, á fjórum dögum. Rústir hinnar merku Hvalseyjarfjarðarkirkju eru við gönguleiðina. Eftir tveggja nátta dvöl í Qaqortoq er siglt inn Eiríksfjörð til Brattahlíðar þar sem skoðaður verður bær Eiríks rauða áður en flogið er til baka til Reykjavíkur frá Narsarsuaq. Þetta er krefjandi gönguferð ætluð vönu fólki enda þarf að bera allan búnað og mat með sér. Gist er 3 nætur í tjöldum og fjórar í svefnpokaplássi á farfuglaheimilum. Gengið er með viðleguútbúnað í fjóra daga, en annars eru gönguferðir frá náttstað og verða þátttakendur að vera vanir gönguferðum. Veðurfar er svipað og á Íslandi en að jafnaði er lygnara en á Íslandi. Enn eru örfá pláss laus í þessa gönguferð, en nánari upplýsingar um ferðatilhögun má fá á skrifstofu Trex, Hesthálsi 10, sími: 587 6000 og heimasíðunni: www.trex.is. Verð ferðarinnar eru kr. 108.000.