Grein um Lónsöræfi eftir Leif Þorsteinsson

Gönguferð á Lónsöræfum (Stafafellsfjöll ) sumarið 2007

 

Lýsing á ferð sem einnig er á dagskrá hjá FÍ í sumar.

 

Inngangur

 

Ef fjallasvæðið innan Stafafells í Lónssveit verður lagt undir Vatnajökulsþjóðgarð er líklegt að til verði gönguleið sem að mínu mati skartar öllum þeim fjölbreytileika sem finna má í Íslenskri náttúru. Þar eru gil og gljúfur, fagrir gróðursælir dalir, litfagrar skriður og háir fossar stundum allt fyrir auganu á samtímis. Það er þessi hringur sem mig langar að lýsa fyrir þér sem kannt að lesa þessar línur mínar.

Í þetta sinn var með mér hópur góðra félaga bæði karla og kvenna sem hefur þann sið að fara í eina gönguferð á sumri þar sem reynt er að leggja leiðina þannig að hægt sé að gista í skálum. Það er lélegur skúti sem ekki er betri en úti. Þá verður burðurinn líka minni. Allt var þetta þrautvant útivistar og göngufólk, sérlega skemmtilegt sem kann að meta íslenska náttúru og njóta þess að vera úti, tilbúið að takast á við það sem upp kann að koma.

 

Fyrsti dagur

 

Við gistum á Stafelli nóttina áður en gangan hófst. Það var hálfskýjað en stillt og gott gönguveður. Fyrst var okkur ekið inn að Múla í Álftafirði þar sem er skóli sveitarinnar, að vísu ekki lengur notaður sem slíkur. Þar  var okkur raðað í fjóra jeppa. Þetta var nauðsynlegt þar sem vegurinn inn Múladal, ef veg skyldi kalla er aðeins fær jeppum. Lítið eitt innan við Hvannavelli endar jeppaslóðinn, við Leirás þar sem Ferðafélag Djúpavogs hefur reist lítin skála. Þar skilja leiðir jeppamanna og okkar. Við leggjum á okkur pokana og göngum inn eftir hlíðinni þangað til við komum að klettahrygg sem heitir Háás. Þar liggur leiðin upp í botn Víðidals.

Héðan er um tvær leiðir að ræða til að komast fram í skálan við Kollumúlavatn. Að vaða Víðdalsána á Norðlingavaði og taka síðan beina stefnu suður í skálann. Geri maður þetta missir maður ekki hæð. Við ákváðum hinsvegar að ganga fram Víðidal og niður að Grund. Eftir að hafa rifjað upp sögu Grundar var Víðidalsá vaðin rétt fyrir neðan fossinn Beljanda. Þó áin geti oft verið erfið viðureignar var hún það ekki í þetta sinn. Leiðin upp fjallshlíðina var talsvert erfið enda tókst mér kannski ekki finna auðveldustu leiðina. Mér varð hugsað til þeirra Víðidalsbænda sem á vetrum þurftu að bera hey í kindurnar sínar, upp þessar brekkur og niður í Leiðatungur. Það hefur ekki alltaf hafa verið létt. Klukkan var orðin rúmlega níu þegar við komum í skálann við Kollumúlavatn eftir níu klst. ferð frá Leirási. Þar er alltaf jafn huggulegt og vistlegt enda húsið undir verndarvæng vinar míns Þórhalls Þorsteinssonar á Egilsstöðum.

 

 

 

 Annar dagur

 

Það er gaman að vakna við Kollumúlavatn í björtu og fallegu veðri og sjá suður á fjöllin. Kollumúlinn er næstur þá Sviptungnahnúkurinn og Hnappadalstindarnir. Í vestri ber Sauðhamarstindinn hæst og síðan sjálfan Vatnajökul. Svona var það þennan morguninn. Endastöð dagsins var Múlaskáli í Nesi. Þangað máttum við ekki vera mjög sein því við þurftum að skreppa fram á Illakamb til að sækja vistir. Við ákváðum engu að síður að leggja lykkju á leið okkar og ganga á Kollumúlann. Ég hafði verið þar einu sinni áður og vissi því að útsýni þar uppi við veður- og birtuskilyrði sem voru þennan dag svíkja engan. Hækkunin er heldur vart mikið meiri en rúmlega 200 m miðað við umhverfið. Gangan upp gekk eins og í sögu. Bragi Sigurjónsson segir í bók sinni Göngur og Réttir I að sé um nokkra paradís á jörð að ræða þá birtist hún þar. Ég vil gera orð hans að mínum. Í norðri blasir Víðdalurinn, grösugur og fagur. Mér kemur í hug frásagan af því þegar þeir Þorvaldur Thoroddsen og Sigfús Jónsson komu fyrst í dalinn, sennilega 1882 og óðu hvönnina og grasið í hné. Það er ekki skrítið að bóndinn Sigfús skildi heillast af þessu og hugsað með sér að hér mundi vera hægt að búa góðu búi. Á þessum árum var mikill skortur á jarðnæði á Íslandi og menn víluðu ekki fyrir sér að setjast að á stöðum langt inn til dala sæju þeir einhverja möguleika á því að komast þar af.

Ofan Víðidals tekur við annarskonar landslag, lítið gróið að sjá sem nær allt inn til Snæfells. Í suðri og suðaustri er síðan þriðji og jafnvel fjórði svipurinn með jöklum fjöllum og hrikalegum giljum. Stórihnaus og Stórhnausagil er kannski það sem virðist hrikalegast. Sviptungnahnúkurinn. Hnappdalstindarnir og Hofsjökull blasa einnig við okkur í öllum sínum hrikaleika.

 

Þó erfitt hafi verið að slíta sig frá fegurðinni uppi á Kollumúlanum var okkur ekki til setunnar boðið. Það var ýmislegt eftir óskoðað. Af sléttunni neðan Múlans héldum við fram á brún Tröllakróka og virtum þá fyrir okkur ofan frá. Það liggur við að manni finnist þetta vera eitt af undrum veraldar. Erfitt er að ímynda sér hvernig skaparinn hefur borið sig að við myndun þessara klettadranga og kynjamynda í hamraveggnum. Niður undan Tröllakrókum er beljandi Jökulsáin og fjallshlíðin hinu megin með tindana þrjá, Sauðhamarstind, Lambatungnatind og Suðurtungnatind sem útverði svæðisins. Þar á bak við sér síðan inn á Vatnajökul.

Áfram liggur leiðin niður á við. Ég hafði ætlað mér beint niður Leiðatungur en lenti óviljandi inn á stikaða leið dálítið vestar. Talað er um leiðina á milli gilja. Hún reyndist talsvert brattari  með leiðinlegum skriðum. En í staðin gengum við á innri brún Stórhnausgils. Útsýni niður í það svíkur engan. Hafði reyndar hugsað mér að ganga út Gjögrið seinni partinn og koma að gilinu hinumegin. En úr því forsjónin hagaði hlutunum þannig var það óþarfi.

Við komumst þetta klakklaust enda þrautvant fólk á ferð. Ég ráðlegg hinsvegar engum að fara þessa leið nema að fólk sé í góðu formi og alls ekki upp, heldur halda aðeins lengra inn eftir og þar upp Leiðatungurnar.

Þegar komið var niður á Jökulsáraurinn var leiðin greið heim í Múlaskála. Það sem tafði okkur á þessum síðustu metrum var óendanleg litadýrð í steinunum bæði á aurnum og ekki síður í Stórahnaus.

Eftir að menn höfðu fengið sér smá kaffilögg fóru nokkrir af þeim sem aldrei þreytast fram á Illakamb eftir hráefni í kjötsúpu sem ákveðið hafði verið að hafa í kvöldmat. Við vorum þrír sem tókum þetta að okkur, ég, Magnús og Ásmundur. Fram á Illakamb komumst við léttir og glaðir í lund. Ragnar vinur minn á Þorgeirsstöðum brást okkur ekki, því kyrfilega hafði verið breitt yfir kassana. Maturinn var nú tekin úr kössunum og settur í bakpokana og skundað til baka í skálann. Dágóða stund tók að elda súpuna en vel bragðaðist hún.

 

 

Þriðji dagur

 

Ég hafði beðið þessa dags með dálítilli eftirvæntingu því nú ætluðum við að ganga leið sem sjaldan hafði verið gengin. Í flestum tilfellum aka menn þennan hluta leiðarinnar. Auðvitað ætluðum við ekki að ganga eftir bílveginum. Dagurinn lofaði góðu þegar í upphafi eins og reyndar öll ferðin frá byrjun til enda. Það var sólarlaust að mestu en bjart veður. Þegar við klifum upp klettavegginn ofan við göngubrúna á Jökulsá varð mér hugsað til þeirra sem fluttu hingað efnið í fyrstu brúna sumarið 1953. Það hefur þurft krafta og lagni til koma því í kring. Uppi á Illakambi mættum við Ragnari á Þorgeirsstöðum. Við höfðum samið við hann um að flytja fyrir okkur dótið fram í skálann innan við Ásavatn þar sem við ætluðum að gista næstu nótt. Eins og hans var von og vísa gekk það allt eins og um hafði verið samið. Leið okkar lá síðan fram svokallaða Kamba og Kambagil, talsvert mikið upp og niður utan í skriðum og grjóti en nokkuð auðratað. Allt gekk þetta eins og í sögu enda vant og duglegt fólk á ferð. Litadýrðin og hrikaleiki fjallana var ólýsandi. Það var svo margt og merkilegt að marga daga á eftir var hugurinn á ferðalagi til að vinna úr upplifuninni.

Fram að Ásavatni komum við eftir sex klst. göngu í nýjan skála sem Gunnlaugur Ólafsson frá Stafafelli er að byggja. Þó byggingu hans hafi ekki verið að fullu lokið var það nóg til þess að við gátum gist þar.

Veðrið þetta kvöld var svo stillt og fagurt að þeir Magnús og Ásmundur löbbuðu með svefnpokann sinn út í móa og sváfu þar um nóttina.

 

Fjórði dagur

Það var næstum heiður himin og semsagt alveg logn þegar við risum úr rekkju þennan morguninn. Það var svo fínt að maður hefði helst viljað hægja svolítið á klukkunni til að geta notið stundarinnar eilítið lengur. En það stendur víst ekki til boða. Tíminn líður hvort sem manni líkar betur eða verr. Af stað vorum við komin rétt upp úr kl. 9,00. Nú lá leið okkar norður fyrir Eskifell og þar yfir nýja göngubrú á Jökulsá, mikið mannvirki og traust. Hún gerir það að verkum að hringleiðin sem nefnd var í byrjun greinarinnar er orðin að veruleika. Eykur stórlega gildi þessa landssvæðis sem útivistarparadísar.

Með brúna að baki gengum við fram með Austurskógum. Nokkrir lækir verða á vegi okkar en engin þeirra var farartálmi að þessu sinni. Vafalaust geta þeir orðið erfiðari yfirferðar í rigningatíð. Það er ruddur bílvegur yfir það sem heitir Gvendarnes sem virkar eins og hálendistangi út úr fjalllendinu fyrir ofan. Sunnan þess heitir Smiðjunes þar sem búið var fyrrum. Um það vitna bæjarrústir. Inn frá Smiðjunesi er Hvannagil. Þar er að finna einhverjar litskrúðugustu og tilkomumestu líparítmyndanir sem myndast hafa út frá Lónseldstöð. Meðan við dveljum í gilinu gleymum við bókstaflega stund og stað, vorum ein í veröldinni, sammála um að slíka upplifun sé erfitt að komast yfir nema á Íslandi. 

Sem betur fór tók ég eftir slóða sem lá skáhalt upp úr gilinu, svolítið bratt en ekki mikið mál fyrir þennan hóp. Útsýnið af gilbrúninni suður yfir og inn á fjöllin var óviðjafnanlegt. Það átti einnig við um litadýrðina sem blasti við okkur niður í gilinu sjálfu. Þarna uppi kom í ljós stikuð leið um gras og kjarr sem endaði heim á hlaði í Stafafelli. Þarna heitir Seldalur.

Þar með var þessari fjögra daga göngu lokið um svæði sem að mínu mati er eitthvert það stórbrotnasta og litskrúðugasta á Íslandi.

 

Lokaorð

Eins og ég sagði í byrjun greinar minnar að ef þetta svæði verður lagt undir Vatnajökulsþjóðgarð er þarna komin gönguleið sem stendur Laugaveginum, leiðinni á milli Landmannalauga og Þórsmerkur fyllilega á sporði.. Það sem á vantar til að gera þessa leið fullkomna er góður skáli við Leirás í Múladal, síðan þarf að ljúka byggingu skálans fyrir innan Eskifell og merkja leiðina betur. Þá er þetta fært öllu venjulegu fólki sem á annað borð getur eitthvað hreyft sig.

 

Leifur Þorsteinsson fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands

 

Heimildir

     1  Bragi Sigurjónsson, Göngur og Réttir I, Bókaútgáfan Skjaldborg Akureyri 198

      2.  Hjörleifur Guttormsson, Austfjarðafjöll. Árbók Ferðafélagas Íslands 1973.

3.      Hjörleifur Guttormsson, Austfirðir, frá Álftafirði til Fáskrúðsfjarðar. Árbók Ferðafélags Íslands 2002,.

4.      Inga Rósa Þórðardóttir, Víðidalur í Stafafellsfjöllum,.Ríkisútvarpið 18. desember 1996