GSM samband í Þórsmörk

Fyrir skömmu voru settir upp tvenns konar sendar á Þórólfsfelli, innarlega í Fljótshlíð. Annar tryggir fjarskiptasamband fyrir lögreglu og björgunarsveitir gegnum Tetra kerfið en hinn er sendir fyrir GSM. Með þessu stórbatnar símasamband í Þórsmörk sem fram að þessu hefur verið mjög af skornum skammti og nær sambandslaust þar nema á tilteknum blettum.
Nú má heita fullt símaband gegnum GSM í Húsadal, Langadal og Básum sem eru helstu áfangastaðir ferðamanna í Þórsmörk. Þetta stóreykur öryggi ferðamanna á þessum slóðum en alkunna er hve varasöm vatnsföll geta verið í Þórsmörk ekki síst Krossá.
Ekkert lát er á vinsældum Þórsmerkur og heimsækja ferðamenn þennan töfrandi stað allan ársins hring.
Þórsmörk

Horft út eftir Þórsmörk frá Stangarhálsi. Aurar Krossár fremst en Valahnúkur gnæfir fyrir miðri mynd.