Vatnajökull á Háfjallakvöldi

Børge Ousland
Børge Ousland

Háfjallakvöld þar sem Vatnajökull er í brennidepli verður haldið þriðjudagkvöldið 24. apríl í stóra sal Háskólabíós. Fyrirlestrarnir eru í boði Vina Vatnajökuls og Ferðafélags Íslands og í samstarfi við Félag íslenskra fjallalækna (FÍFL).

Vatnajökull hefur verið mikið í sviðsljósinu síðustu misseri, ekki síst vegna jarðhræringa í Öræfajökli og Bárðarbungu en líka vegna þess að sótt hefur verið um að Vatnajökulsþjóðgarður verði skráður á heimsminjaskrá UNESCO.

Aðalfyrirlesari kvöldsins verður Norðmaðurinn Børge Ousland en hann er á meðal þekktustu núlifandi pólfara og þveraði fyrstur manna bæði Norður- og Suðurpólinn einn síns liðs. Auk þess hefur hann þverað Grænlandsjökul og Vatnajökul frá vestri til austurs og mun hann segja frá þeirri göngu og öðrum ævintýrum í fyrirlestri sínum.

RAX þarf vart að kynna en hann er einn fremsti ljósmyndari okkar Íslendinga og er þekktur fyrir verk sín víða um heim. RAX hefur sérhæft sig í ljósmyndun jökla og lífinu á norðurslóðum. Sýndar verða myndir úr flugferðum hans og Tómasar Guðbjartssonar læknis yfir Vatnajökul sl. haust, en þær voru farnar til að ná myndum í ljósmyndabókina Jökla, sem er væntanleg næsta haust og er styrkt af Vinum Vatnajökuls.

Ólafur Már Björnsson augnlæknir og Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir eru forsprakkar Félags íslenskra fjallalækna (FÍFL) og miklir áhugamenn um útivist og náttúruvernd. Í fyrirlestri sínum sýna þeir ljósmyndir og stutt myndbönd frá ferðum sínum í Vatnajökulsþjóðgarði, m.a. gönguferð í Vonarskarð og fjallaskíðaferðir á Snæfell (1833 m) og Hvanndalshnjúk (2110 m).

Magnús Tumi Guðmundsson er prófessor í jarðeðlisfræði og reyndur fjallamaður. Í fyrirlestri sínum mun hann segja frá jarðfræði Vatnajökuls, sem hann þekkir betur en flestir, enda stundað þar rannsóknir um árabil.

Aðgangur er ókeypis en á staðnum geta gestir styrk Vini Vatnajökuls með framlögum sem m.a. munu nýtast til uppbyggingar Vatnajökulsþjóðgarðs.