Hátíðarfundur FÍ í Norræna húsinu í gærdag í tilefni af 80 ára afmæli félagsins tókst vel. Um 150 gestir mættu til fundarins. Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson heiðraði fundinn með heimsókn sinni og flutti félaginu kveðju og hlý orð. Sérstakelga ánægjulegt var að 45 nemendur í 10. bekk Smáraskóla voru á fundinum og gerðust félagsmenn í FÍ í framhaldi af hátíðarsamþykkt stjórnar FÍ um að opna félagið sérstaklega fyrir ungu fólki. Páll Skúlason prófessor og Pétur Gunnarsson rithöfundur fluttu erindi og 26 einstaklingar voru sæmdir gullmerki FÍ. Um kvöldið var síðan opið hús í FÍ salnum þar sem um 500 félagsmenn kíktu við í kaffi og kökur.
Ólafur Örn Haraldsson forseti FÍ og Sigrún Valbergsdóttir varaforseti FÍ sæmdu 26 einstaklinga gullmerki FÍ fyrir einstakt starf í þágu félagsins og eða fyrir framúrskarandi störf í þjóðfélaginu á kjörsviðum félagsins.
Hátíðarsamþykkt stjórnar FÍ í tilefni 80 ára afmæli félagsins sem haldinn var í Eimskipafélagshúsinu ( þar sem félagið var stofnað fyrir 80 árum ) í gærdag hljóðar svo:
Stjórnarfundur Ferðafélag Íslands haldinn í Eimskipafélagsinshúsinu í tilefni af 80 ára afmæli félagsins samþykkir að börn og unglingar undir 18 ára aldri séu sérstaklega velkomin í félagið og geti notið vildarkjara á félagskjörum. Nárar er kveðið um réttindi og skyldur þeirra í lögum félagsins.
Í framhaldi af þessari hátíðarsamþykkt stjórnar gengu 45 nemendur 10. bekkjar Smáraskóla í Ferðafélagið í gærdag. Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ bauð þau velkomin í félagið og færði þeim gps tæki og talstöð að gjöf frá félaginu sem og þá voru allir nemendur í flíspeysu frá Cintamani, merktri FÍ og Smáraskóla. Auk þess fá nemendurnir námskeið frá FÍ um fjallamennsku og FÍ aðstoðar Smáraskóla í hjólaferð skólans að Fjallabaki næsta sumar.