Heillandi og fjölbreytt Austurland

Hjörleifur Guttormsson er höfundur árbókarinnar í ár. Þetta er áttunda árbókin hans.
Hjörleifur Guttormsson er höfundur árbókarinnar í ár. Þetta er áttunda árbókin hans.

„Það sem einkennir þetta svæði er m.a. merkileg og auðsæ jarðsaga,“ segir Hjörleifur Guttormsson höfundur árbókar FÍ í ár. Hún ber heitið Upphérað og öræfin suður af. Hjörleifur fjallar á greinargóðan hátt, með 580 myndum og fjölmörgum uppdráttum, um fjölbreyttan og spennandi hluta Austurlands.  

„Þarna er einn elsti hluti Íslands með leifum af miklum eldstöðvum, sem eru hinir veðruðu og tálguðu fjallgarðar Austfjarða, 10-12 milljón ára gamlir. Vestan Lagarfljóts er svo komið í jarðmyndanir á öðru og mun yngra gosbelti, sem er núna virkt í Þingeyjarsýslum. Fyrir fólk sem hefur áhuga á jarðfræði er þetta merkilegt svæði.“

Umfjöllunarefnið nær, gróft á litið, yfir Fljótsdalshérað, Brúaröræfi, Vesturöræfi, Kringilsárrana, Kverkfjöll, Krepputungu og Möðrudal á Efra-Fjalli. 

„Hérað er auðvitað þekkt svæði,“ heldur Hjörleifur áfram. „Lagarfljót gefur svæðinu líf, þótt það sé breytt og búið að missa þann lit sem var á því þegar ég var að alast þarna upp. Þetta er líka skógsælt svæði. Hallormsstaðaskógur var friðlýstur í upphafi 20.aldar og skógrækt setur verulegan svip á umhverfið. Bændaskógrækt er stunduð víða og eins eru þarna náttúrulegir birkiskógar. Þeir eru afar fallegir.“

Sögulegar minjar og óbyggðir

Í bókinni er fjallað töluvert um fornleifauppgrefti á svæðinu, sem nokkrir hafa farið fram nýverið. Svæðið er ríkt af sögu og minjum. En það er líka stutt í óbyggðirnar. Bókin fjallar þannig einnig um lendur sem lengi voru mönnum lítt kunnar. „Öræfasvæðið inn að Vatnajökli var í raun ekkert þekkt fyrr en farið var að rannsaka það á síðustu öld, og þá ekki síst í tengslum við virkjanaundirbúning,“ segir Hjörleifur. Stór hluti þess svæðis er nú partur af Vatnajökulsþjóðgarði. 

Þetta er áttunda árbók FÍ sem Hjörleifur skrifar. Við útmörk þess svæðis sem hann fjallar um nú taka við önnur svæði sem hann hefur áður skrifað um. Við norðurmörkin tekur við árbókin um Úthérað, þar sem Egilsstaðir og Héraðsflói eru í lykilhlutverki. Hún er frá 2008. Við mörkin í vestri tekur svo við bókin um Norðausturland. Hún kom út 2013. 

Að búa til örnefni

Hjörleifur byrjaði vinnuna við þessa bók eftir að bókin um Norðausturland kom út, eða fyrir fimm árum. „Þetta er búið að taka tíma og það eru margir sem hafa komið að þessu verki með mér.“  Hann nefnir sérstaklega Guðmund Ó. Ingvarsson sem gerir uppdrættina í bókinni, sem eru 64 talsins. Guðmundur hefur séð um uppdrætttina í þeim árbókum sem Hjörleifur hefur skrifað, frá 1987. 

Í þeirri vinnu ríkir viss verkaskipting. „Ég set örnefnin inn á kortin og færi til betri vegar það sem er ekki rétt í eldri uppdráttum,“ segir Hjörleifur. „Það hefur orðið heilmikil leiðrétting á örnefnasetningu á Austurlandi og eins hafa mörg ný nöfn orðið til. Það er skemmtilegur hluti af þessu, að búa til ný örnefni. Það þarf að nefna fyrirbæri sem hafa ekki haft nafn áður. Mörg þessi nöfn eru komin inn á kortagrunninn og í notkun hjá fólki.“

Hjörleifur útilokar ekki að fleiri árbækur líti dagsins ljós frá hans hendi, einhvern tímann í framtíðinni. En önnur hugarefni eiga hug hans einnig. „Mér hefur verið hugsað til forðfeðra minna. Einn þeirra var Sigurður Gunnarsson. Hann var uppi frá 1812 til 1848 og ritaði margt, m.a. um hálendið. Hann var prestur, prófastur og alþingismaður. Hann sat Þjóðfundinn 1851 og var mikill stuðningsmaður Jóns Sigurðssonar. Ég hef verið að gæla við að taka saman meginefnið af hans ritsmíðum, sem liggja hér og þar, og vinna að útgáfu.“ 

Árbók FÍ 2018