Það má vel klæða sig úr hverri spjör og stökkva ofan í heitan læk þó að það sé komið haust en nákvæmlega það gerðu fjörutíu hugrakkar sálir í villibaðsferð Ferðafélags barnanna um þarliðna helgi.
Hópurinn hittist við skrifstofur Ferðafélags Íslands og ók í halarófu upp á Hellisheiði þar sem beygt var inn á Ölkelduhálsinn og gangan hófst. Stefnan var sett á Klambragilið með viðkomu hjá risastórum bullandi leirhver með fallega gráum loftbólum.
Krakkarnir voru fljótir að læra hvernig á að haga sér á svona hættulegum stöðum þar sem bullsjóðandi vatn frussast í allar áttir. Þegar búið var að skoða hverinn og ummerki eftir skessuna í Klambragilinu var haldið niður snarbratta brekku niður í gilið sjálft og að hinum fyrirheitna heita læk í Reykjadal. Þar hófst síðan leit að passlega heitum hyl og áður en varði voru sundfataklæddir krakkar og fullorðnir búnir að dreifa sér um alla á og farnir að reyna á eigin skinni eðlisfræðina sem veldur því að kalt vatn leitar niður en heitt vatn upp.
Það var örlítið erfitt að komast upp úr en það hjálpaði þó til að í boði voru grillaðar pulsur og sykurpúðar. Reyndar gleymdist grillgrindin heima en því var snarlega bjargað með því að þræða pulsurnar upp á pinna og grilla þær þannig yfir kolunum. Það var ýmislegt forvitnilegt sem fannst í þessari ferð, m.a. risastór svartsnigill, gufumettaður inngangurinn að helvíti og hola sem rúmaði barn þannig að aðeins hausinn stóð upp úr jörðinni – bara gaman!