Alls 53 fóthvatir morgunhanar mættu í fjórðu morgungöngu Ferðafélags Íslands að morgni fimmtudags og skunduðu upp á Helgafell í Mosfellsdal. Að þessu sinni var fenginn kunnugur heimamaður Bjarki Bjarnason sem sagði þátttakendum til vegar og fræddi þá um sögu landsins og örnefni. Gengið var upp á fjallið sem er ekki ýkja hátt nánar tiltekið 217 metrar yfir sjó og síðan haldið í austur eftir því endilöngu og gengið niður í mynni Skammadals og þaðan vestur með fjallsrótum að bílastæðinu á ný.
Veður var kyrrt og sólin yljaði ferðalöngum sem léku á als oddi enda er að myndast ágætis fjölskyldustemmning í hópnum því stór hluti þátttakenda kemur á hverjum morgni og ræktar tengslin við nýja ferðafélaga og fornar slóðir.
Í fyrramálið verður gengið á Úlfarsfell og þar býður Ferðafélagið upp á morgunverð og vonandi verður eitthvert óvænt skemmtiatriði á toppnum. En til þess að komast að því hvað það er aðeins ein leið- nefnilega að mæta á staðinn.
Þátttaka er ókeyps í morgungöngurnar, allir velkomnir.
Lagt verður af stað frá Mörkinni 6. kl. 6.