Helgi og dýrkun steina og kletta

Nafnfræðifélagið

 Laugardaginn 25. febrúar nk. heldur Nafnfræðifélagið fræðslufund í Odda, húsi Háskóla Íslands, stofu 106, kl. 13.15. Sigurður R. Helgason, framkvæmdastjóri, flytur erindi sem hann nefnir  HELGI OG DÝRKUN STEINA OG KLETTA Á ÍSLANDI  

Átrúnaður og helgi á steinum og klettum virðist hafa verið furðu algeng á Íslandi til forna og jafnvel langt fram eftir öldum. Lagaboð, örnefni og sagnir ýmiss konar bera því vitni. Í þessu sambandi má nefna hina fjölmörgu Landdísarsteina á Vestfjörðum,Grásteina um allt land, Dvergasteina, Gullsteininn að Giljá, klettastrýturnar Goðfinnu og Guðfinnu í Akrafjalli, Gunnsteina á Flateyjardal, klettinn Goð við Reyðarfjörð o.fl. Fjallað verður um steina þessa, kletta og strýtur í erindinu og leitast við að ráða í hlutverk þeirra á grundvelli örnefna, sagna, útlits, staðsetningar o.fl. Ýmsar óvæntar spurningar hafa vaknað tengdar þeirri viðleitni. Erindið verður stutt fjölda mynda.

Fyrirlesari, Sigurður R. Helgason, hefur kannað allar örnefnaskrár Stofnunar Árna Magnússonar og safnað örnefnum sem virðast tengjast eða gætu tengst heiðni á Íslandi og hefur meðal annars flutt erindi á vegum Nafnfræðifélagsins um Goðhóla og Goðaborgir á Íslandi.