María Dögg Tryggvadóttir er einn þeirra fararstjóra hjá Ferðafélagi Íslands sem hefur farið fyrir hópum í hinum fjölmennu ferðum á Hvannadalshnúk á liðnum árum. Hún er nýkomin úr hvítasunnuferð FÍ á Hnúkinn og er að undirbúa næstu ferð sem skellur á strax um næstu helgi, en þar er um að ræða aukaferð FÍ 6. júní. Er þetta í fyrsta sinn í sögu FÍ sem boðið er upp á aukaferð á Hnúkinn. Segir þetta vitaskuld sitt um vinsældir Hnúksferða hjá landanum. Sem dæmi um vinsældirnar má nefna að ekki er óvanalegt að á fjallinu séu um og yfir 200 manns á einum degi ef vel viðrar.
María Dögg segir að síðasta Hnúksferð hafi einkennst af nokkuð krefjandi aðstæðum á fjallinu en þátttakendur hafi hinsvegar verið mjög einbeittir í sókn sinni að settu marki. "Mér fannst gleðilegt að upplifa hversu sterkur og samstíga hópurinn var, þrátt fyrir strembnar aðstæður," segir hún. "Fólk var mjög vel útbúið og hafði líka undirbúið sig andlega og líkamlega fyrir þessa ferð. Það skal þó viðurkennast að ég varð fyrir smávonbrigðum með veðrið því ég hefði viljað fræða fólk um umhverfið og nálæg fjöll - en allt slíkt verður víst að bíða þegar skyggnið er ekki nema í mesta lagi 100 metrar. Ég verð samt að nefna að fólki fannst éljagangurinn og þokan hreint ekki leiðinleg viðfangs og margir litu á það sem skemmtun að takast á við fjallið í krefjandi aðstæðum. Þetta var auðvitað til marks um hið jákvæða viðhorf sem fólk hafði frá upphafi til enda og skiptir mikilu máli um hvernig tekst til. Það var skemmtilegt að heyra fólk flissa og hlægja í hríðarmuggunni í 2 þúsund metra hæð en þegar fararstjóri verður var við slíkt þarf hann ekki að hafa áhyggjur af því að fólki sé kalt, eða líði á nokkurn hátt illa. Á tindinum sjálfum töluðum við um að nú yrðu þau einfaldlega að koma aftur til að freista þess að fá eitthvað útsýni og öllum hugnaðist sú hugmynd vel," segir María Dögg.
Aðspurð um hvort hún merki breytingar í innlendri ferðamennsku á liðnum misserum segist María Dögg vissulega hafa séð þær. Gönguferðir virðist það sem fólk sækist eftir í mjög miklum mæli, hvort heldur eru fjallgönguferðir eða hefðbundnar gönguferðir. "Mér finnst áberandi hversu fólk á miðjum aldri sækir fast að stunda gönguferðir um Ísland. Þetta er kannski fólk sem er ekki bundið yfir ungum börnum og getur gefið sér tíma til að hella sér í þann heillandi heim sem gönguferðir sannarlega eru. Einnig merki ég líka mjög vaxandi áhuga meðal kvenna og það er engin spurning að það er mikill kraftur í þeim. Flestar gönguferðir eru enda fullbókaðar í sumar og það er auðvitað mjög ánægjulegt. Að lokum má nefna að efnahagsástandið hlýtur líka að eiga sinn þátt í þeirri aukningu sem við sjáum í innlendum ferðalögum."
María Dögg segir langflesta þátttakendur í gönguferðum mæta með góðan og traustan búnað og hafi kynnt sér ferðatilhögun og fleira. "Auðvitað eru einhverjar undantekningar á þessu, en almennt er fólk mjög vel undirbúið og hefur þjálfað sig og komið sér upp góðum búnaði. s.s. bakpoka, hlíðfarfatnaði og viðlegubúnaði sem stenst íslenskar aðstæður. Þetta eru hlutir sem skipta mjög miklu máli þegar gæði hverrar ferðar eru metin, því það segir sig sjálft að blautur og hrakinn ferðalangur geislar ekki að kvöldi í náttstað. Ef fólk klæðir af sér veðrið og tekst að láta sér líða vel yfir daginn skiptir veðrið litlu máli og allir eru kátir yfir kvöldverðinum í tjaldbúðum. En að sjálfsögðu lyftir gott veður andanum á hærra plan. Í mínum huga fylgir því mikil frelsistilfinning að ganga um óbyggðirnar og vera laus undan daglegu áreiti vegna síma og tölvu. Að finna fyrir léttum andvara og fá sól í andlitið eru ómetanleg gæði, að ekki sé talað um góða ferðafélaga," segir hún.
Og það verður nóg að gera hjá Maríu Dögg við fararstjórn í sumar. Hún sinnir fararstjórn í þremur ferðum á Hvannadalshnúk og mun einnig stýra gönguhóp í 4 daga gönguferð um Jarlhettusvæðið ásamt Ólafi Erni Haraldssyni forseta FÍ. Þá fer hún með gönguhópa um Kjalveg hinn forna og um Hornstrandir, svo eitthvað sé nefnt.