Tólf manna vinnuhópur á vegum Ferðafélags Íslands fór í vinnu- og frágangsferð í Hrafntinnusker um helgina. Farið var með efni og aðföng á fimm jeppum og tveimur vörubílum með krana. Einnig voru grafa og haugsuga með í för. Mun fleiri komu að undirbúningi ferðarinnar með margs konar efnisútvegun og snúningum.
Framan af var veðrið ágætt en síðasta daginn kafsnjóaði, en ferðin stóð yfir frá fimmtudegi til sunnudags. Eftir nokkurn barning tókst þó að koma öllum bílum og búnaði heilum heim. Skálinn í Hrafntinnuskeri er í um 1.100 metra hæð.
Þrær voru tæmdar og seyra urðuð samkvæmt samkomulagi við sérfræðinga Umhverfisstofnunar, að sögn Páls Guðmundssonar framkvæmdastjóra FÍ. Pappír bindi og rusl var flokkað frá og flutt til byggða til förgunar. Tengingar að hitaspíral voru endurnýjaðar eftir bráðabirgðaviðgerð í vor. Hlífðarkápur settar yfir rör og tengingar og mokað yfir. Efni í nýja og endurbætta vatnsveitu var flutt á staðinn og einnig var geymsluhús flutt þangað og komið fyrir, en þar er rafmagn og lýsing. Eldra skjólhús á tjaldsvæði var tekið og flutt í burtu en þakið á því var brotið og gegndi það því illa hlutverki sínu. Unnið var að ýmsum viðgerðum og lagfæringum á húsum og búnaði og öllu rusli var safnað saman og flutt til förgunar.