,,Hressilegar áskoranir," segir formaður ferðanefndar

Sigrún Valbergsdóttir formaður ferðanefndar FÍ

Margar nýjungar í ferðaáætlun FÍ 2010:

Hressilegar áskoranir

 

Margar nýjungar eru í ferðaáætlun Ferðafélags Íslands fyrir árið 2010. Má þar nefna nokkrar sumarleyfisferða félagsins hafa ekki áður verið á dagskrá og einnig er boðið upp á fjölmargar helgar- og dagsferðir sem ekki hafa boðist áður. Nýjungar eru dæmis daglegar jökulgöngur úr Þórsmörk á Eyjafjallajökul snemma sumars og einnig ferðir um Friðland að fjallabaki sem er umfjöllunarefni Árbókar FÍ í ár.

„Yngra fólk leitar í auknum mæli til okkar og er opið fyrir hressilegum áskorunum, eins og verkefninu 52 fjöll sem við fórum af stað með í ársbyrjun. Ferðafélagið mætir vaxandi áhuga yngra fólks með mikilli ánægju en raunar hefur fólk á öllum aldri gengið til liðs við okkur að undanförnu," segir Sigrún Valbergsdóttir formaður ferðanefndar FÍ.

Laugavegur og Lónsöræfi

Laugavegsferðir FÍ eru sígildar og hafa verið í ferðaáætlun FÍ allt frá því skálum var komið upp á leiðinni.. „Eftir Laugavegsgöngu er fólk fært í næstum hvaða óbyggðagöngu sem er. Laugavegurinn er sígildur og sama má segja um ferðir á Hornstrandir, í Lónsöræfi og Fjörður. Í sumar erum við með tvær unglingaferðir á Hornstrandir og fjölskylduferðir um hverja helgi í Þórsmörk undir því yndislega heiti María, María. Áætlunin er þannig gerð að það er litið til allra aldurshópa og einnig til mismunandi göngugetu fólks."

Í ár ætlar FÍ að bjóða fjallahlaupaköppum upp á nýja leið sem hlotið hefur nafnið Skarðsheiðarskeið. Það er um 28 km leið allt frá Geldingadraga að Borgarfjarðarbrú, eftir lokasprett yfir Hafnarfjall. Sú ferð er á dagskrá 26. júní

Úr Bitru suður í Brú

Einnig má nefna Framhjágönguna miklu. Hjónin Baldur Sigurðsson og Eva Benediktsdóttir hafa lengi haft ártalið 2012 í huga, en þá verða 100 ár liðin frá hinni frægu framhjágöngu Þórbergs Þórðarsonar. Þá stakk hann af, af skipinu Hólum í Norðurfirði á Ströndum og ákvað að ganga stystu leið suður allar Strandir til að banka uppá hjá elskunni sinni að Bæ við Hrútafjörð, sem hann síðan guggnaði á. Í ár verður fyrsti hluti þessarar göngu genginn með það fyrir augum að ljúka henni 2012. Gangan í ár hefst í Norðurfirði, 22. júlí og endar fjórum dögum síðar  við Óspakseyri við Bitrufjörð. Á næsta ári verður svo gengið úr Bitru suður í Brú

Sigrún Valbergsdóttir hefur lengi verið meðal fararstjóra FÍ og leitt hópa víða um land. Um páskana ætla þau Bragi Hannibalsson að vekja Læknishúsið á Hesteyri úr vetrardvala og fara þaðan í göngur á skíðum eða tveim jafnfljótum. Þessi ferð hefur verið farin nokkur undanfarin ár og nýtur vinsælda. „Þá er Sögugangan á áætlun nú í sjötta sinn. Í þetta sinn verðum við Magnús Jónsson á slóðum Vatnsdælu og höldum til á Hofi í Vatnsdal sem er landnámsjörð Ingimundar gamla. Síðan verð ég með Ástu Böðvarsdóttur jógakennara um jónsmessuna í Hlöðuvík og í lok júlí held ég á vit víðerna og afskekktar á Arnarvatnsheiði," segir Sigrún Valbergsdóttir.