Framundan er páskahelgin, helgi sem margir nota alla jafna til að ferðast bæði heima og til útlanda. En í ljósi aðstæðna er það ekki í boði og því ágætt að huga að því hvað við getum gert til að brjóta upp hversdagsleikann. Við settum því saman lista með nokkrum hugmyndum sem hægt er að hrinda í framkvæmd næstu daga, eða bara hvenær sem er. En áður en við förum yfir þær eru nokkur mikilvæg atriði.
Númer 1, 2 og 3 að fara eftir fyrirmælum.
Við förum að sjálfsögðu í einu og öllu eftir því sem Alma, Víðir og Þórólfur segja. Við höldum okkur í heimabyggð og helst bara með heimilismeðlimum. Ef við ákveðum að fara út með öðrum þá er mikilvægt að hópurinn sé mjög fámennur og að tveggja metra reglan sé virt. Við þurfum líka að passa sérstaklega vel að fara okkur ekki að voða. Við viljum ekki einu sinni snúa ökkla, því allt sem kallar á utanaðkomandi aðstoð, til dæmis björgunarsveita eða heilbrigðisstarfsfólks, er aukaálag á kerfi sem þegar er í viðkvæmri stöðu.
Við ferðumst innanhúss, innan veggja heimilisins og í okkar nærumhverfi og nágrenni. Gott púsl inni við, spil eða bakstur eru allt ávísanir á skemmtilega samveru en þar sem hreyfing og útivera er mikilvæg bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu þá mælum við með að allir nái sér í gott súrefni. Það gerir alla glaðari.
En vindum okkur þá í hugmyndirnar
Innanhúss og garðurinn
Fyrst, innanhúss. Það má rugla herbergjaskipan og skiptast á herbergjum. Eða jafnvel draga allar dýnur heimilisins fram í stofu og sofa þar öll saman. Spila, búa til heitt súkkulaði og baka vöfflur. Nú er tíminn til að vera pínu þjóðleg.
Ef við hættum okkur rétt út fyrir hús þá er enginn sem segir að ekki megi tjalda í garðinum þótt það sé ekki sumar. Tjaldið er tilvalið fyrir leik yfir daginn og svefn að nóttu. Það er ótrúlega lítið mál að sofa úti þótt íslenskum sumarhita sé ekki náð, flestir eiga auka ullarteppi sem nota má bæði til að breiða undir og yfir fjölskylduna.
Almannavarnagöngur, bangsar og skrítin mynstur.
En svo má alveg fara meira en tíu metra frá húsinu. Almannavarnagöngur FÍ ganga einmitt út á það að fara í gönguferð í nærumhverfi heimilisins og ef þið eruð ekki búin að ganga í hópinn á Facebook þá má gera það hér. Til að gera göngurnar enn meira spennandi fyrir börn (og einhverja fullorðna) þá er verðugt verkefni að telja alla þessa bangsa sem eru í gluggum landsmanna. Eða að nota Strava eða önnur smáforrit til að búa til skemmtilegt mynstur. Skoða fyrst götukort og ákveða leiðina og skora svo á vini og vandamenn í keppni um frumlegustu gönguna eða göngumynstrið.
Nú ef fólk vill gera aðeins meira en labba þá er skokk mjög skemmtileg hreyfing sem fær hjartað til að pumpa. Það væri kannski lag að vera skipulögð þetta árið og hefja strax æfingar fyrir Reykjavíkumaraþonið.
Útivistarperlur, nesti og ratleikur.
Það má líka gera margt skemmtilegt í Laugardalnum, Öskjuhlíð, Hólminum í Elliðaárdal, Heiðmörk eða skóginum við Úlfarsfell svo einhverjir staðir séu nefndir. Akureyringar gætu til að mynda farið í Kjarnaskóg en flestir bæir hafa að minnsta kosti eitt svæði sem ríkt er af trjám. Það er nefnilega svo gott skjól í skógum og þeir staðir því tilvaldir fyrir lautarferðir. Bara klæða fjölskylduna vel, setja gott nesti í körfu eða bakpoka og njóta þess að vera úti. Við minnum líka á ratleikinn okkar í Heiðmörk sem hægt er að fara í hvenær sem er. Ratleikur með góðu nesti hljómar eins og gott tækifæri til að skapa skemmtilegar minningar.
Svo eru það fjallgöngurnar. En bara fyrir þau sem eru vön þeim. Nú er ekki málið að fara í fyrsta sinn á Esjuna. Þið munið, við viljum ekki snúinn eða brotinn ökkla. Úlfarsfell, Helgafell, Mosfell, það eru alls kyns fell í eða við borgina sem hægt er að ganga á. Að ógleymdri Öskjuhlíð, Heiðmörk og Elliðaárdal sem eru náttúruperlur innan borgarmarkanna.
Förum vel með okkur.
Aðalmálið er að hugsa vel og fallega um sig og sína. Hvílast vel, nærast og fara helst aðeins út. Og muna líka að veðrið er iðulega betra þegar út er komið og það má klæða það flest af sér. Við færum lítið ef við færum bara út í sól og blíðu búandi á Íslandi.
Hvernig væri til dæmis að sjá rigningu sem tækifæri til að fara út og hoppa í pollum? Og syngja með Helga Björns „Mér finnst rigningin góð.“ Föt hafa nefnilega þann dásamlega eiginleika að þorna og við búum svo vel að geta farið í heitt bað eða sturtu til að ná aftur hita í kroppinn.
Við vonum að minnsta kosti að þið njótið hátíðarinnar og að þið náið að skapa gleðilegar minningar með fjölskyldunni sem hægt verður að rifja upp um ókomin ár.
Gleðilega páska kæru vinir.