Fyrsti vitinn við Íslandsstrendur var byggður á Reykjanesi 1878. Síðan þá hefur margt breyst og þeir orðnir öllu fleiri. En hvernig er þessu háttað í borginni?
Árleg haustganga Ferðafélags Íslands um höfuðborgarsvæðið er að þessu sinni tileinkuð vitasögu Reykjavíkur. Við hefjum leika við Vitatorg kl. 10:30 laugardaginn 5. október.
Það er fararstjórinn Pétur H. Ármannsson sem ætlar að ganga frá Vitatorgi, Vitastíg 5, að Sjómannaskólanum á Rauðarárholti. Þaðan er haldið að nýja vitanum við Höfða og meðfram norðurströndinni allt að Ingólfsgarði. Þetta er tæplega 6 km hringur sem endar á upphafsstað.
Við minnum á að þátttaka er ókeypis og allir að sjálfsögðu velkomnir.