Hvannadalshnúkur um helgina

Númer: D-10
Dagsetning: 30.5.2009
Brottfararstaður: Sandfell
Viðburður: Hvannadalshnjúkur með FÍ
Erfiðleikastig:
Lýsing:

Hvannadalshnjúkur með FÍ
30. maí, laugardagur (hvítasunna)
Fararstjóri: Haraldur Örn Ólafsson                                             

Árleg ferð á Hvannadalshnjúk (2.110) sem hefur notið mikilla vinsælda. Ekið verður á einkabílum austur í Öræfi föstudagskvöldið 29. maí og er gisting að eigin vali. Gengin verður Sandfellsleið og hefst fjallgangan kl 04:00 við bílastæðið við Sandfell á laugardeginum. Hæðarhækkun eru rúmir 2000 metrar og er gert ráð fyrir að gangan taki í heild 12 til 15 klukkustundir. Heitur grillmatur og svalardrykkir bíða við rætur fjallsins.
Helsti útbúnaður: Skór með góðum sóla, mannbroddar, klifurbelti, ísöxi, sólgleraugu, sólaráburður, skjólgóður fatnaður og nesti. Nánari útbúnaðarlisti verður sendur með tölvupósti.

Undirbúningsfundur 27.  maí kl 20 í Mörkinni
Skráning og greiðsla fyrir 1. maí.

Þátttaka í dagsferðum FÍ og reglulegar fjallgöngur góður undirbúningur fyrir ferðina.  Sjá undirbúningsáætlun FÍ fyrir ferðina á heimasíðu FÍ.

Verð kr 12.000/15.000 án gistingar og búnaðar.  Búnaður fæst leigður hjá FÍ. Takmarkað magn.
Innifalið í verði: Fararstjórn, grill og svaladrykkir eftir göngu og bolur.

 

Á Hvannadalshnúk um hvítasunnuna

 

Hvannadalshnúkur er óumdeilt landsins hæsti tindur og ekki stendur til að breyta þeirri stöðu hans þótt sífellt nákvæmari mælingar undanfarin ár hafi leitt í ljós ofurlítið lægri tölu en þá sem þjóðin lærði í barnaskóla. Í vitund þjóðarinnar er tindurinn 2119 metrar yfir sjávarmál og það skal látið standa þótt nýlegar  GPS mælingar séu nær 2111 metrum.

Ferðafélag Íslands hefur undanfarin ár staðið fyrir göngum á Hvannadalshnúk um hvítasunnu og leiðangrar þessir hafa notið sívaxandi vinsælda og hvert ár skipta þeir hundruðum sem sigrast á landsins hæsta fjalli og sjálfum sér um leið. Allir sem komast á tindinn eru sigurvegarar og Ferðafélagið er stolt af því að hafa átt þátt í þeirri miklu fjölgun sem orðið hefur í hópi Hvannadalshnúksfara undanfarin ár og hyggst halda því starfi áfram af fullum krafti.

Undanfarin ár hefur Haraldur Ólafsson leitt leiðangra Ferðafélagsins á Hvannadalshnúk og hefur það átt sinn þátt í vinsældunum. Varla þarf að kynna Harald nánar en hann er víðförlasti og magnaðasti fjallamaður sem Ísland hefur átt. Enginn Íslendingur hefur leikið afrek Haraldar eftir en ungur að árum hefur hann komið báða pólana, klifið hæsta tind hverrar heimsálfu, farið þvert yfir Grænlandsjökul svo fátt eitt sé nefnt meðal afreka hans. Haraldur er nátengdur Ferðafélagi Íslands nefndur í höfuðið á afa sínum Haraldi Matthíassyni menntaskólakennara á Laugarvatni sem skrifaði margar árbækur FÍ og lagði drjúgan skerf af mörkum við könnun leiða á hálendi Íslands og brautryðjendastarf á sviði ferðamennsku.

Árið 2009 ber hvítasunnuhelgina upp á mánaðamót maí og júnímánaðar og að vanda stefna Ferðafélagsmenn á Hnúkinn eins og þetta hálfheilaga fjall er yfirleitt kallað meðal þeirra sem þangað sækja.

Ferðatilhögun er að vanda þannig að menn koma á eigin bílum í Skaftafell eða Öræfasveit en gangan hefst við bílastæðið við Sandfell kl. 04.00 að morgni laugardags. Þaðan lestar hópurinn sig upp Sandfellsheiði og ganga menn lausir í fyrstu en við jökulrönd í um 1000 metra hæð er honum skipt í 10-12 manna hópa sem ganga eftir það bundnir saman í línu í klifurbeltum og þarf hver maður að hafa ísöxi og mannbrodda með í farangri sínum. Fremstur í hverri línu fer fararstjóri frá Ferðafélaginu en allir lúta þeir leiðsögn Haraldar sem er aðalfararstjóri leiðangursins. Með þessu er hámarksöryggi hópsins tryggt og nýjasta tækni í staðsetningum og fjarskiptum notuð til að tryggja greiða leið hópsins upp á brún öskju Öræfajökuls í um 1800 metra hæð. Síðan liggur leiðin þvert yfir öskjuna til norðurs eftir sléttri snjóbreiðu fyrir austan sprungusveim Virkisjökuls sem fellur fram úr öskjunni. Á þessum slóðum mun jökullinn vera um 500 metra þykkur niður á öskjubotn. Í norðurbarmi öskjunnar rís svo Hvannadalshnúkur og er nokkuð bratt upp á hnúkinn sjálfan og þar reynir oftast á notkun brodda og axar og þátttakendur læra margt um notkun þessara mikilvægu öryggistækja.

Almennt má segja að ganga á Hvannadalshnúk sé við hæfi flestra sem fullfrískir mega teljast en þátttakendur verða þó að vera í talsvert góðu formi til þess að njóta verkefnisins. Þetta er löng ganga en flestir hópar eru 12-15 klukkustundir að fara fram og til baka.  Að lokinni göngu sameinast fjallgöngumenn í grillveislu í Sandfelli og gleðjast yfir vel unnu dagsverki.

Helsti útbúnaður sem þátttakendur þurfa að ráða yfir eru góðir gönguskór, mannbroddar, klifurbelti, ísöxi, góð sólgleraugu, sólaráburður, skjólgóður fatnaður og nesti. Nánari útbúnaðarlisti verður sendur þátttakendum en undirbúningsfundur er haldinn í Mörkinni, húsnæði Ferðafélags Íslands nokkrum dögum fyrir brottför og þar geta væntanlegir Hnúkfarar ráðfært sig við fararstjóra og fagmenn.

Nánari upplýsingar fást á vefsíðu Ferðafélags Íslands www.fi.is

eða á skrifstofu félagsins í síma 568-2533.