FERÐAFÉLAG ÍSLANDS
Ganga á Hvannadalshnúk
Hvítasunna 9-12. maí 2008
Fararstjóri: Haraldur Örn Ólafsson
Ferðatilhögun:
Reiknað er með að gengið verði á Hnúkinn á laugardag en sunnudagur er varadagur. Þátttakendur verða að fylgjast með heimasíðu FÍ til hádegis á föstudag þar sem fréttir birtast af endanlegum uppgöngutíma. Einnig verður sendur tölvupóstur á þá sem hafa gefið upp netfang.
Að öllu óbreyttu verður fyrirkomulag ferðarinnar svona: Þátttakendur koma sér sjálfir austur í Öræfi á föstudag á einkabílum. Mælt er með að leggja af stað ekki seinna en kl. 17:00 þar sem aksturinn tekur um fimm tíma og mikilvægt er að hvílast fyrir uppgönguna. Gisting er í höndum hvers og eins en bent er á að fararstjórar verða í tjöldum í Svínafelli.
Áætlað er að uppgangan hefjist stundvíslega frá Sandfelli kl. 4 að morgni laugardagsins 10. maí. Gengið veður Sandfellsleið. Hæðarhækkunin er um 2000 metrar og má gera ráð fyrir að gangan taki í heild 14 klukkustundir (upp og niður).
Góð ráð:
Hvíla skal í viku fyrir gönguna, borða og sofa vel. Best er að reyna að halda stressinu í lágmarki til að geta sofið vel og verið vel upplagður. Mikilvægt er að drekka vel af vatni áður en lagt er af stað í gönguna. Einnig er mikilvægt að borða og drekka í öllum stoppum til að viðhalda orkubúskapnum. Þá er mikilvægt að bera á sig sólaráburð reglulega allan daginn og nota sólgleraugu. Gott er að setja íþrótta-plástur (sports-tape) á hæla fyrir gönguna til að forðast hælsæri. Mikilvægt er að vera ekki of mikið klæddur, eitthvað sem flestir flaska á. Ekki hafa of mikið af fötum í bakpokanum, þau eru ótrúlega þung og maður þarf ekki á þeim að halda. Galdurinn er að hafa bara það sem maður þarf - óttinn við skortinn er mjög sterkur hjá mörgum. Þetta á líka við um mat, ekki hafa allt of mikið. Við munum ganga á mjög jöfnum og rólegum hraða en það skilar bestum árangri. Mikilvægt er að vera ekki of æstur í göngunni í byrjun, það fara margir flatt á því. Þetta er langur dagur og mikilvægt að púls og öndun fari aldrei mikið upp. Á móti kemur að við munum stoppa sjaldan og stutt. Mikilvægt að nýta stoppin vel til að gera allt sem þarf að gera, borða, drekka, pissa, setja á sig plástur og bera á sig sóláburð. Klassísk mistök eru svona: Mikið stress fyrir ferð og í upphafi ferðar, ekkert sofið og lítið borðað, lítið drukkuð um morgun út af stressi, pokinn þungur, of mikið klædd/klæddur, mikill sviti, hjartsláttur og öndun, gengið of hratt í byrjun, lítið borðað og drukkið út af stressi, í miðri ferð er þjáningin orðin mikil og ánægjan að göngunni á hraðri niðurleið. Þetta er allt hægt að forðast með góðum undirbúningi.
Öryggismál:
Mikil áhersla er lögð á að tryggja hámarks öryggi í ferðinni. Farið verður yfir öryggismál á undirbúningsfundi og við upphaf ferðar. Mikilvægt er að þátttakendur taki vel eftir þessum atriðum og fari eftir leiðbeiningum fararstjóra. Fjallgöngur fela ávallt í sér áhættu og eru þátttakendur á eigin ábyrgð í ferðinni.
Drykkir og nesti:
Drykkir 2 til 3 lítrar. Mælt er með einum lítra af heitu, t.d. kakó eða te. Aðrir drykkir geta t.d. verið orkudrykkur eða ávaxtasafi.
Nesti getur t.d. verið fjórar flatkökur með hangikjöti, einn kexpakki og súkkulaðistykki.
Útbúnaður fyrir gönguna:
Vandaðir gönguskór með góðum sóla.
Bakpoki (35 til 45 lítrar)
Mannbroddar. Mikilvægt er að stilla brodda á skó fyrir ferðina
Klifurbelti og læst karabína
Ísöxi (gönguöxi, ca. 60-70 cm.)Sólgleraugu og skíðagleraugu
Sóláburður og varasalvi
Jakki og buxur úr vindheldu öndunarefni
Flíspeysa, göngubuxur og síð nærföt
Húfa, vettlingar og göngusokkar
Legghlífar
Göngustafir
Myndavél
Hælsærisplástur