Nýjasta ritið okkar, Mosfellsheiðarleiðir, er komið á skrifstofu FÍ. Í því eru lýsingar á 23 göngu- og reiðleiðum sem sumar hverjar eru vörðum prýddar, enda hefur heiðin gegnt mikilvægu hlutverki í samgöngum á svæðinu. Tólf leiðanna eru gamlar þjóðleiðir, sex hringleiðir og svo fimm línuvegir. Í ritinu er að finna auk leiðarlýsinganna, staðfræðikort, GPS-hnit og ljósmyndir.
Framhald af árbókinni
Ritið kemur út í framhaldi af árbók FÍ um Mosfellsheiði og eru höfundar þeir sömu, þau Bjarki Bjarnason, Jón Svanþórsson og Margrét Sveinbjörnsdóttir og eru öll þaulkunnug heiðinni og hafa gengið hana þvera og endilanga á undanförnum árum. Ljósmyndir eru eftir Þóru Hrönn Njálsdóttur og Sigurjón Pétursson og um kortagerð sá Guðmundur Ó. Ingvarsson. Hönnun var í höndum Bjargar Vilhjálmsdóttur og sá Prentmet um prentun.
Við erum afar ánægð með afraksturinn enda er ritið bæði fræðandi og fallegt.
Tilboð til Félagsmanna
Ritið verður á sérstöku tilboðs- og netverði fyrir félagsmenn kr. 1.900 en almennt verð er kr. 3.400