Í upphafi göngu og upp í 1000 metra hæð gengu Hnúksfarar í svartaþoku en veðurspá gerði ráð fyrir björtum degi að nóttu liðinni. Gekk það eftir enda var Ferðafélögum heilsað með skjannabirtu og feiknagóðu útsýni þegar ofar dró. Einstaklega gott göngufæri var á jöklinum og sóttist ferðin því fljótt. Fyrstu hópar voru 7 klst og 40 mínútur að ná tindinum. Ósvikin gleði var við völd þegar tindinum var náð, en þess má geta að yfir 300 manns voru á fjallinu þennan dag og var FÍ leiðangurinn fremst í þeirri miklu röð. Strax á eftir kom 120 manna hópur frá Fjallafélaginu og síðan bættust enn fleiri við frá fleiri leiðsögufyrirtækjum.
Niðurferðin gekk vel hjá FÍ hópnum en strax um hádeigsbil var farið að bera verulega á sólbráð og þyngdist færið hratt. Að lokinni göngu tók Alfreð Hilmarsson frá FÍ á móti hópnum með með grillveislu í Sandfelli. Eins og oft í Hnúksferðum FÍ voru þátttakendur á öllum aldri, allt frá 17 ára til sjötugs, eða þar um bil, jafnt konur sem karlar. Umsjón með ferðinni hafði Haraldur Örn Ólafsson og fararstjóri var Örlygur Sigurjónsson ásamt 10 meðfararstjórum frá FÍ.