Hvorki meira né minna en 80 hjálmklæddir hausar hurfu ofan í jörðina í Gjábakkahrauni á Þingvöllum í lok september. Sem betur fer komu allir hausarnir aftur upp eftir tæpa 400 metra göngu, skrið og klöngur í iðrum jarðar.
Um var að ræða hellaferð Ferðafélags barnanna en leiðin lá í Gjábakkahelli sem liggur undir gamla veginn um Gjábakkahraunið. Með í för var formaður Hellarannsóknafélags Íslands, Guðni Gunnarsson, sem útskýrði tilurð hella og þær sérstöku umgengnisreglur sem um þá gilda.
Eftir góða nestispásu hélt hópurinn í næsta helli, Laugavatnshelli. Sá hellir er allt öðru vísi enda manngerður, þ.e. meitlaður inn í móbergsklappir, og var mannabústaður á árum áður.
Móbergið í kringum hellinn er svo hið dægilegasta klifursvæði fyrir orkumikla krakka. Gilið sem liggur upp frá hellinum geymir magnaðar bólstrabergsmyndanir og þegar búið var að skoða þær var ferðinni slúttað í sundi, gufu, sána og almennu vatnabusli á Laugavatni.
Hér má sjá fleiri myndir.